Það er ekki hægt að segja að það sé hlutverk ríkisins að koma félögum í hallarekstri eða í rekstrarerfiðleikum til hjálpar og erfitt að setja slíkt fordæmi,“ sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, á fundi Félags viðskipta- og hagfræðinga í gær. Greint var frá því í morgun að Wow air hafi óskað eftir ríkisábyrgð á lánum til að koma félaginu í gegnum sína rekstrarerfiðleika á meðan viðræður við Indigo Partners standa yfir.

„Hins vegar erum við að mjög að reyna að meta áhrifin á hagkerfið af því ef að það yrðu áföll hérna. Ég held að við myndum alltaf í hverju sem við myndum gera horfa til þess hvað er að koma þjóðarhag best án þess að setja slæm fordæmi. Þannig að mín persónulega sannfæring er að við eigum ekki að skipta okkur af svona rekstrarvandamálum en við eigum hins vegar að gera það sem við getum til þess að lina áfallið fyrir hagkerfið, draga úr atvinnuleysi og við halda hagvexti, ef við höfum einhverju hlutverki þar að gegna,“ sagði Bjarni.

Ekki ljóst að aðkoma ríkisins myndi skipta máli

„Við höfum fylgst með allt frá því síðastliðið haust stöðunni hvað ferðaþjónustuna varðar og við höfum þurft að hafa til hliðsjónar, fráviksspár ef það verða áföll. Þá höfum við lagt mat á það hvaða afleiðingar það geti haft fyrir hagkerfið og ríkið. Við vonumst til þess að þetta hafi góða lausn. Það er alveg ljóst að áföll í ferðaþjónustunni munu finnast víða," sagði hann.

Bjarni sagði að stjórnvöld hafi skoðað fráviksspár í hagspám verði áföll í ferðaþjónustunni. „Varðandi aðkomu ríkisins erum við í sjálfu sér ekki að skoða neitt sérstakt á þessum tímapunkti. Enda eins og ég hef sagt hér að það er ekki beint hlutverk ríkisins að vera með bein afskipti. En við höfum talið okkur skylt að fylgjast vel með og það hefur verið sérstakur aðgerðarhópur að störfum til þess og ekki alveg auðséð hvers konar innkoma ríkisins eða lausn frá ríkisins hálfu myndi skipta máli,“ sagði Bjarni jafnframt.