Seðlabanki Íslands var af Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir viku síðan sýknaður af skaðabótakröfu félaganna 1924 ehf. og Rasks ehf. Niðurstaða dómsins byggði á því að ekki þótti sýnt fram á að starfsmenn bankans hefðu sýnt af sér saknæma háttsemi. Dómarnir tveir voru birtir í gær.

Líkt og oft vill verða á málið sér nokkra forsögu sem teygir sig aftur til ársins 2010, að þessu sinni til nauðasamnings Klakka ehf., áður Exista ehf. Samkvæmt honum fengu kröfuhafar greiðslur í formi nýs hlutafjár í félaginu auk greiðslna í íslenskum krónum eftir því sem laust fé hrökk til. Tveimur árum síðar var lögum um gjaldeyrismál breytt og felld úr gildi undanþága til að greiða kröfur úr þrotabúum eða greiðslur samkvæmt nauðasamningum milli landa. Af þeim sökum voru greiðslur til erlendra aðila settar á þar til gerðan vörslureikning og óljóst hvort eða hvenær kröfuhafar fengju þá fjármuni til brúks á erlendri grund. Einhverjir kröfuhafar brugðu þá á það ráð að selja kröfu sína.

Sjá einnig: Vilja 246 milljónir í bætur

Erlend móðurfélög Rask og 1924 voru í hópi félaga sem keyptu slíkar kröfur. Seinna meir lánuðu þau kröfur sínar til dótturfélaga sinna með tegundarákveðnu láni. Lánin bar að gera upp árið 2024 með því að skila sömu eða sambærilegum réttindum en ellegar í formi peningagreiðslu sem samsvarar verðmæti lánsins að mati lánveitanda að viðbættu 20% álagi. Dótturfélögin, stefnendur í málinu, fóru síðan fram á að fá greiðslur frá Klakka sem handhafar kröfunnar.

Fyrstu tvær greiðslurnar til Rask, í júlí 2014 og október 2014, fóru í gegn en bið varð á greiðslu í janúar 2015. Þá hafði Seðlabankinn ákveðið að taka til skoðunar hvort það að lána kröfuna bryti í bága við skilyrði áðurnefndra laga um gjaldeyrismál. Þeirri athugun lauk í ágúst 2016 með ákvörðun SÍ um að leggja 75 milljóna króna sekt á Rask fyrir brot gegn téðum lögum. Félagið höfðaði dómsmál til að fá þeirri ákvörðun hnekkt og var sektin felld niður með dómi Hæstaréttar í september 2018. Samkvæmt dómnum fól lánveitingin í sér fjármagnshreyfingu sem braut gegn lögunum. Hins vegar hefði félagið ekki reynt að leyna gjörningum sínum og SÍ vitað af þeim um hálfs árs skeið áður en athugun hófst. Með hliðsjón af því að ekki var um alvarlegt brot að ræða og þess tómlætis sem SÍ sýndi af sér var sektin felld niður.

Á þeim tíma er málið var til athugunar hjá SÍ, og þar til ákvörðun var tekin, voru greiðslur frá Klakka til félaganna tveggja settar á ís. Í málinu nú kröfðust þau þess að bankinn greiddi sér bætur vegna þessa. Byggja félögin tvö á því að SÍ hafi skort lagaheimild fyrir því að leggja fyrir Klakka að stöðva greiðslur til þeirra. Benti Reimar Pétursson, lögmaður þeirra, á að tæki til þess hafi ekki verið fest í gjaldeyrislögin fyrr en eftir að rannsókn á málinu hófst. Þá hafi SÍ sent Klakka bréf í september 2016 þar sem kom fram að ekkert stæði í vegi fyrir útgreiðslu ef greiðslan færi ekki á milli landamæra.

Félögin tvö kröfðust bóta vegna þessa, samtals 246 milljón króna. Í niðurstöðu héraðsdóms segir að í dómaframkvæmd um skaðabótaskyldu stjórnvalda á grunni sakarreglunnar vegna athafna og ákvarðana í stjórnsýslunni „hafi verið miðað við það að þótt lagatúlkun stjórnvalds reynist ekki rétt, og skilyrði [sakarreglunnar] um ólögmæti teljist þar með uppfyllt, leiði það ekki sjálfkrafa til bótaskyldu, heldur verður skilyrðið um saknæmi starfsmanna stjórnvalds jafnframt að vera uppfyllt.“

Að mati dómsins höfðu félögin tvö ekki rennt nægum stoðum undir það að starfsfólks Seðlabankans hefðu sýnt af sér saknæma háttsemi. Skilyrði sakarreglunnar væru því ekki uppfyllt og því sýknað strax á þeim grunni. Félögunum var gert að greiða SÍ 750 þúsund krónur í málskostnað hvert um sig.