Eftir umfjöllun RÚV þess efnis að grunur léki á mansali á veitingastaðnum Shanghæ á Akureyri hefur þurft að loka staðnum. Jóhannes Már Sigurðarson lögmaður veitingastaðarins segir að ekki hafi í upphafi verið ætlunin að loka en eftir umfjöllunina reyndist það nauðsynlegt og íhuga nú eigendur að höfða dómsmál.

„Fljótlega varð ljóst að hjá því varð ekki komist að loka,“ segir Jóhannes Már í Fréttablaðinu en þvert á fullyrðingar RÚV um 30 þúsund króna mánaðarlaun kínverskra kokka veitingastaðarins hefur blaðið heimild fyrir því að þeir hafi haft 465 þúsund krónur.

„Það kom ekki stakur viðskiptavinur inn á staðinn eftir að fyrsta fréttin af málinu fór í loftið, og birgjar farnir að sækja tæki sem þeir höfðu lánað inn á veitingastaðinn. Þau viðbrögð verður að telja fullkomlega eðlileg, þegar um alvarlegar ásakanir um refsiverða háttsemi er að ræða. Eigandi veitingastaðarins var í fréttum grunaður um brot sem varðar allt að 12 ára fangelsi.“

Eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá hefur stéttafélagið Eining-Iðja aflað gagna um að veitingastaðurinn hafi starfað samkvæmt lögum. Eru forsvarsmenn staðarins ósáttir við yfirlýsingar RÚV um málið sem þeir segja skjóta ábyrgðinni á félagið, sem sé fjölmiðlinum ekki samboðið. „Fréttastofa þess þarf ein að axla ábyrgð af ófaglegum vinnubrögðum sínum."