Peningastefnunefnd Seðlabanka Bandaríkjanna hækkaði stýrivexti vestanhafs í 2,25% eftir fund nefndarinnar þann 26. september síðastliðinn. Var þetta í þriðja sinn á þessu ári sem vextir eru hækkaðir í Bandaríkjunum og í áttunda sinn frá því að Seðlabankinn hóf að hækka vexti á nýjan leik í desember 2015 eftir að hafa haldið þeim í 0,25% frá desember 2008. Rétt er að taka fram að peningastefnunefndin vestan-hafs birtir stýrivexti sína á bili sem venjulega eru 0,25 prósentustig. Í þessari umfjöllun verður stuðst við efri mörk bilsins. Þá ber einnig að nefna að stýrivextir Seðlabanka Bandaríkjanna miðast við dagsvexti (e. overnight rate) á meðan stýrivextir Seðlabanka Íslands miðast við vexti á sjö daga bundnum innlánum.

Vaxtaákvörðunin kom markaðsaðilum ekki mikið á óvart. Eftir vaxtahækkun í júní gaf peningastefnunefndin það út að von væri á tveimur hækkunum til viðbótar á árinu. Þetta var því önnur þeirra auk þess sem meirihluti nefndarmanna gaf það út að enn megi búast við einni hækkun til viðbótar á árinu. Þá gerir spá Seðlabankans ráð fyrir þremur hækkunum á næsta ári og einni árið 2020.

Eins og áður segir hefur bandaríski seðlabankinn verið í aðhaldsfasa í peningamálum frá árinu 2015. Hafa stýrivextir ekki verið jafn háir frá því í mars 2008 þegar fjárfestingabankinn Bear Stearns féll. Áður en áherslubreytingin í peningastefnunni átti sér stað hafði Seðlabankinn þar á undan staðið í veigamiklum aðgerðum til þess að örva hagkerfi Bandaríkjanna í kjölfarið á fjármálakreppunni sem reið yfir fyrir 10 árum síðan. Hafa þessar aðgerðir oftast gengið undir nafninu magnbundin íhlutun. Frá miðju ári 2006 til desember 2008 voru vextir lækkaðir um 5 prósentustig úr 5,25% í 0,25% þar sem þeim var haldið fram í desember 2015 þegar bankinn hóf að hækka stýrivexti sína á nýjan leik. Frá lok árs 2008 jók Seðlabankinn einnig skuldabréfaeign sína úr 900 milljörðum dollara í 4.500 dollara þegar skuldabréfkaupunum var hætt í október árið 2014.

Sterk staða í Bandaríkjunum

Á blaðamannafundi í kjölfar vaxtaákvörðunarinnar var Jerome Powell, seðlabankastjóri ánægður með stöðuna í hagkerfi Bandaríkjanna. Sagði hann að staða hagkerfisins væri sterk, vöxtur væri heilbrigður, atvinnuleysi væri lágt, Atvinnuþátttöka færi vaxandi auk þess sem laun væru að hækka á sama tíma og verðbólga væri lág og stöðug. Þá lét hann einnig hafa það eftir sér að þrátt fyrir áhyggjur af erfiðara viðskiptaumhverfi, meðal annars vegna tollstríðs við Kína, væri ekki erfitt að sjá áhrif þess á heildarframmistöðu hagkerfisins. Sagði hann að það væri mögulegt að tollahækkunum yrði velt út út í verðlag en engar vísbendingar væru um það í gögnum bankans. „Við erum einfaldlega ekki að sjá áhrif frá tollahækkunum strax. Við fylgjumst þó mjög vel með þróuninni,“ sagði Powell.

Sé litið á bandarískar hagtölur er nokkuð ljóst að staða hagkerfis Bandaríkjanna er sterk. Hagvöxtur mældist 4,2% á árstíðarleiðréttum ársgrunni á öðrum ársfjórðungi þessa árs og hafði þá ekki verið meiri síðan á öðrum ársfjórðungi 2014. Þá uppfærði Seðlabankinn hagvaxtarspá sína fyrir árið í ár. Er nú gert ráð fyrir að hagvöxtur verði 3,1% sem er hækkun upp á 0,3 prósentustig frá fyrri spá. Þó er gert ráð fyrir því að hægja taki á hagvexti á næstu árum og gerir spá Seðlabankans ráð fyrir 2,5% vexti árið 2019 og 2% vexti árið 2020.

Þá hefur atvinnuleysi í Bandaríkjunum ekki verið jafn lágt frá árinu 1969. Atvinnuleysi í september mældist 3,7% og hefur lækkað nær samfleytt frá því að það náði 10 prósentustigum í október árið 2009. Þá hækkuðu laun um 0,3% í september og hafa hækkað um 2,8% á ársgrundvelli.

Samkvæmt spá Seðlabankans er gert ráð fyrir því að atvinnuleysi muni halda áfram að lækka og muni standa í 3,5% í lok árs sem er heilu prósentustigi undir langtímaspá um atvinnuleysi.

Betri staða á vinnumarkaði í Bandaríkjunum hefur verið ein af helstu forsendum Seðlabankans fyrir stýrivaxtahækkunum til stemma stigu við verðbólguþrýstingi sem sterkur vinnumarkaður skapar. Verðbólga í landinu mældist 2,2% í ágústmánuði og er því rétt yfir verðbólgumarkmiði sem er 2%. Seðlabanki Bandaríkjanna miðar verðbólgumarkmið sitt við kjarnaverðbólgu (e. core inflation) en í þeim tölum eru áhrif af verðbreytingum í matvælum og eldsneyti ekki tekin með Sé litið á vísitölu neysluverðs, mældist verðbólga 2,7% í ágúst. Gerir spá seðlabankans ráð fyrir að verðbólga á næsta ári muni verða 2,1% og er óbreytt frá síðustu spá.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .