Eldofninn ehf., sem rekur pítsustað undir sama nafni í Grímsbæ, hagnaðist um 8,3 milljónir króna á síðasta ári samanborið við 5,1 milljón árið áður. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins.

Veitingastaðurinn seldi pítsur fyrir 171,8 milljónir og jókst salan um tæplega 13 milljónir milli ára. Rekstrarkostnaður nam 157,2 milljónum og jókst um 9 milljónir. EBITDA var 14,6 milljónir en var 10,7 milljónir árið 2016.

Eignir Eldofnsins námu tæplega 47,6 milljónum króna í árslok 2017 en námu 40,8 milljónum ári áður. Eigið fé nam 14,1 milljón og jókst um 8,4 milljónir milli ára. Eiginfjárhlutfall hækkaði úr tæplega 14% í 27%.

Handbært fé Eldofnsins hækkaði um 8,1 milljón á árinu og nam 17,4 milljónum í árslok. Eldofninn er fjölskyldufyrirtæki í eigu Ellerts A. Ingimundarsonar og Evu Karlsdóttur.