Öll félög á aðalmarkaði lækkuðu á rauðum degi í Kauphöllinni. Heildarvelta á markaði nam 4 milljörðum króna og lækkaði úrvalsvísitalan um 2% í viðskiptum dagsins.

SKEL fjárfestingarfélag leiddi lækkanir á markaði, en gengi félagsins lækkaði um 5,5% þó í einungis um 15 milljóna viðskiptum. Gengi félagsins hefur verið á siglingu á árinu, hækkað um 23% frá áramótum.

Gengi Iceland Seafood lækkaði um 4,5% í 106 milljón króna viðskiptum. Gengi félagsins hefur lækkað um tæpan þriðjung frá áramótum.

Mest velta var með bréf Arion banka, en viðskipti með bréfin námu 615 milljónum króna og lækkaði gengi bréfa félagsins um 3%. 480 milljóna velta var með bréf Marel og hefur gengi bréfa félagsins lækkað um fimmtung frá áramótum.

Á First North lækkaði Hampiðjan um 0,8% í 25 milljóna viðskiptum og Play um 0,4% í 2 milljóna viðskiptum.