Elliði Vignisson bæjarstjóri Vestmannaeyja hyggst ekki bjóða sig fram í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins fyrir Alþingiskosningarnar sem væntanlega verður boðið til í haust.

Kjósendur 67,5% líklegri til að kjósa flokkinn ef Elliði leiddi listann

Segist hann hafa íhugað stöðuna vandlega vegna þess að fjöldi kjósenda í Suðurkjördæmi hafa komið að máli við sig.

„Sérstaklega varð ég var við hvatningu þegar stuðningsmenn mínir létu Maskínu gera skoðunarkönnun þar sem niðurstöður voru meðal annars þær að 67,5% svarenda sögðust vera líklegri til að kjósa Sjálfstæðisflokkinn í kjördæminu ef ég myndi leiða lista flokksins,“ segir Elliði í yfirlýsingunni.

Flýting kosninga takmarkar möguleikana

Eftir að hafa metið stöðuna með nánasta samstarfsfólki, fjölskyldu og stuðningsmönnum segist hann hafa tekið þá ákvörðun að gefa ekki kost á sér í prófkjörinu í suðurkjördæmi nú síðsumars, heldur einbeita sér áfram að ljúka þeim verkefnum sem hann sé ábyrgur fyrir í Vestmannaeyjum, „þar sem hjartað slær. Ég ítreka að ég er afar þakklátur fyrir þann mikla stuðning og velvilja sem ég hef fundið fyrir.“

Í yfirlýsingunni segir hann það takmarka verulega möguleika sveitarstjórnarmana sem annars hefðu haft fullan á hug á framboði til Alþingis að flýta þingkosningunum.

„Í dag er kjörtímabil sveitastjórna rétt liðlega hálfnað og verkefnastaðan þétt. Meðal stærstu verkefna okkar í bæjarstjórn Vestmannaeyja er stækkun á hjúkrunarheimilinu Hraunbúðum, þróun þjónustuíbúða fyrir aldraða, bygging íbúða fyrir fatlaða, fasteignaþróun í miðbæ Vestmannaeyja, þróun háskólanáms, efling þekkingarstarfs, nýsmíði Vestmannaeyjaferju, innleiðing á nýju þjónustuneti fyrir barnafjölskyldur og margt fleira. Þessi verkefni skipta svo marga svo miklu og því mikilvægt að vel takist til.“

Rifja má það upp að Sjálfstæðisflokkurinn sigraði með 73% í síðustu sveitarstjórnarkosningum undir hans forystu.