Rafknúnar skutlur fyrir aldraða, í daglegu tali oft nefndar ellinöðrur, skulu tollflokkast sem ökutæki til mannflutninga en ekki sem ökutæki fyrir fatlaða. Þetta er niðurstaða yfirskattanefndar sem staðfesti með því niðurstöðu Skattsins.

Umrætt farartæki var flutt hingað til lands í apríl á þessu ári og hafði innflytjandi flokkað hana sem rafskutlu. Tollgæslustjóri, sem heyrir undir Skattinn, gerði aftur á móti athugasemd við það og taldi ekki að tækið gæti flokkast sem tæki til heilbrigðisþjónustu. Hámarkshraði þess, 15 km/klst, gæfi þó vísbendingu um að það væri hannað með þarfir eldri borgara eða einstaklinga í yfirþyngd í huga.

Um væri að ræða ökutæki, með fjórum hjólum, keyrt áfram á rafhlöðu og ætlað til að flytja einstaklinga. Til að það gæti fallið í heilbrigðisþjónustuflokkinn þyrfti það að vera sérhannað fyrir fatlaða einstaklinga. Rétt er að geta þess að niðurstaðan um tollflokkun hefði ekki haft nein áhrif á álagningu opinberra gjalda vegna innflutningsins.

Í kærunni er tekið fram að það sæti undrun að tollgæslustjóri hafi ekki tekið afstöðu til þess hvort umrætt tæki gæti talist nýtast í heilbrigðisþjónustu heldur flokkað það sem leiktæki í staðinn. „Vera kunni að kærandi hafi ekki rétt fyrir sér varðandi undanþágu frá virðisaukaskatti, en engu að síður skjóti skökku við að innflytjendur Teslu-bifreiða njóti slíkrar undanþágu á meðan eldra fólk og hreyfihamlaðir þurfi að greiða virðisaukaskatt af nauðsynlegum hjálpartækjum,“ segir í kærunni.

Í niðurstöðu nefndarinnar sagði að ekki yrði séð að rafskutlan væri sérstaklega hönnuð með þarfir fatlaðra í huga og engin rökstudd grein verið gerð fyrir slíku af hálfu kæranda málsins. Því var tekið undir röksemdir Skattsins og ellinaðran flokkuð sem ökutæki til mannflutninga.