Ólíkt flestum stórum flugfélögum heims hefur Emirates, sem er með höfuðstöðvar í Dubai, ákveðið að fljúga áfram til Rússlands. Tim Clark, forseti Emirates, segir að flugfélagið muni halda sínu striki þar til stjórnvöld í Sameinuðu arabísku furstadæmunum ákveði annað.

„Ef við erum beðin um að hætta þá hættum við – þar til okkur er sagt annað, þá höldum við áfram,“ hefur BBC eftir Tim Clark.

Emirates heldur enn úti farþegaflugi til Moskvu og Sankti Pétursborgar auk þess að flytja mat, sjúkravörur og aðrar vörur sem eru undanþegnar refsiaðgerðum á hendur Rússlandi.

Clark segir mikilvægt að horfa til þess að rússneskur almenningur eigi ekki endilega hlut í stríðinu í Úkraínu. Einnig sé verið að horfa til þegna annarra landa sem eiga nauðsynleg erindi í Rússlandi.

„Við erum að uppfylla þarfir fólks sem er á útjaðri ástandsins og þannig líta stjórnvöld líklega á stöðuna,“ segir Clark.

Hann telur að stríðið muni hafi langtíma afleiðingar fyrir flugiðnaðinn, sér í lagi ef vestrænar þjóðir loka á rússneska hagkerfið.

Sameinuðu furstadæmin og Sádi Arabía hafa hafnað ákalli vestrænna þjóðum um að setja á viðskiptaþvinganir á Rússa. Sameinuðu furstadæmin var meðal aðeins þriggja þjóða, ásamt Kína og Indlandi, sem sátu hjá þegar kosið var um að víkja Rússlandi úr mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna fyrr í mánuðinum.