Í nýrri Boeing 777-300ER flugvél flugfélagsins Emirates er að finna glæsilegt fyrsta farrými. Það sem gerir þetta farrými sérstakt er sú staðreynd að í því er ekki að finna einn einasta glugga. Þess í stað er að finna svokallaða sýndarglugga. Frá þessu er greint á vef BBC .

Í stað þess að sjá beint út um gluggana sér fólk á þessu fyrsta farrými umhverfið á sýndargluggunum. Sérstök myndavél er utan á flugvélinni sem varpar myndbandi af umhverfinu á sýndargluggana. Flugfélagið telur að þessi aðgerð muni leiða til þess að flugvélar framtíðarinnar muni vera gluggalausar. Það myndi gera vélarnar léttari og hraðskreiðari.

Forseti Emirates, Tim Clark, segir að stefna félagsins sé að taka í notkun gluggalausar flugvélar.

Graham Braithwaite, sem er sérfræðingur í flugöryggi, telur að það væri ekki auðvelt að fá þessa hugmynd um gluggalausar flugvélar samþykkta af flugyfirvöldum. Ástæðan fyrir því sé sú að gluggar á flugvélum séu mikilvægir fyrir flugöryggi. Flugliðar þurfi til dæmis nauðsynlega að sjá flugvélaskrokkinn að utan ef neyðartilfelli eiga sér stað og rýma þarf vélina. Einnig bendir hann á að þetta gæti hugnast flughræddum illa, þar sem þeim þyki oft betra að sjá út um glugga flugvélarinnar.