Emmessís hagnaðist um 65 milljónir krónar í fyrra. Jókst hagnaðurinn úr tæpum fimmtíu milljónum króna árið 2020. Vörusala jókst um 148 milljónir króna á milli ára og nam 1,374 milljónum króna. Kostnaðarverð seldra vara jókst um tæplega 120 milljónir, fór úr 568 milljónum í 685 milljónir.

Alls námu eignir félagsins 738 milljónum króna í árslok og höfðu aukist úr 636 milljónum króna frá árinu á undan.

Laun og launatengd gjöld námu 340 milljónum króna á síðasta ári, jukust um 20 milljónir frá árinu 2020. Á árinu störfuðu að meðaltali 38 starfsmenn hjá Emmessís, við framleiðslu, sölu og dreifingu, en 37 starfsmenn árið áður.

Mikill viðsnúningur varð á eiginfjárhlutfalli félagsins á milli ára. Hlutfallið var 70% í fyrra en einungis 12,8% árið 2020. Hlutafé félagsins var hækkað um 123,2 milljónir króna að nafnvirði og 369,7 milljónir króna að söluvirði þegar víkjandi láni að fjárhæð 140 milljónir króna og skuld við móðurfélag að fjárhæð 229,7 milljónir króna var breytt í hlutafé. Þannig var hlutafé í árslok 147,7 milljónir króna.

Hluthafar voru tveir í ársbyrjun en í árslok er allt hlutafé í eigu 1912 ehf., félags í eigu Ara Fenger og Bjargar Fenger. Stjórn félagsins hefur lagt til að greiddur verður arður að andvirði 115 milljóna króna til hluthafa vegna ársins 2021.