Feðgarnir Þormóður Jónsson og Baldvin Þormóðsson hafa keypt vörumerki og eignir Íslensku auglýsingastofunnar sem nýlega var tekin til gjaldþrotaskipta . Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.

„Þormóður hefur langa reynslu að baki í rekstri umsvifamikilla auglýsingastofa og við enduruppbyggingu starfsemi Íslensku auglýsingastofunnar hyggst hann jöfnum höndum sækja liðsauka til reynslubolta í faginu og yngra fólks sem nú þegar hefur gert sig gildandi á sviði markaðs- og kynningarstarfs. Til síðarnefnda hópsins verður sérstaklega höfðað með eignarhaldi og þátttöku Baldvins í daglegum verkefnum stofunnar. Baldvin er með BA gráðu í auglýsingagerð og hefur að undanförnu starfað við góðan orðstír sem markaðsráðgjafi og hugmyndasmiður hjá dönsku auglýsingastofunni Thank You Studio,“ segir í tilkynningunni.

Þar segir jafnframt að þeir feðgar hafi þegar tekið til starfa undir merkjum Íslensku auglýsingastofunnar og hafi tryggt sér atgervi sem frá fyrsta degi geti afgreitt verkefni á eðlilegum hraða fullbúinna auglýsingastofa. Gert sé ráð fyrir að starfsemin verði rekin undir óbreyttu nafni í húsnæði stofunnar síðustu árin við Bræðraborgarstíg.

Tókst ekki að bæta upp brotthvarf Icelandair

Hjalti Jónsson, einn eigenda og framkvæmdastjóri Íslensku auglýsingastofunnar fram að gjaldþrotinu, sagði í viðtali við Viðskiptablaðið í síðustu viku að ekki hafi tekist að afla nægra verkefna eftir að Icelandair Group hætti viðskiptum við stofuna um áramótin. Samstæða Icelandair stóð undir um 35-40% af tekjum auglýsingastofunnar.

Sjá einnig: Tókst ekki að endursemja við 365

Þá hafi áhrif heimsfaraldursins bæst við á þessu ári. Auk þess væri félagið með með sjö ára óuppsegjanlegan leigusamning og viðræður um breytingar á honum hefðu ekki skilað tilætluðum árangri en húsnæði auglýsingastofunnar að Bræðraborgarstíg 16 var í eigu 365. Þá hefðu eigendur Íslensku auglýsingastofunnar engin áform uppi um að stofna nýja auglýsingastofu.

Söluverðið trúnaðarmál

Samningur um kaupin ku hafa verið undirritaður hjá skiptastjóra þrotabúsins í dag. Hið keypta er vörumerki og viðskiptavild Íslensku auglýsingastofunnar ásamt tölvu- og húsbúnaði, fullum aðgangi að vistuðum gögnum og verkefnum stofunnar og öðru sem fyrirtækinu fylgir. Þá segir að andvirði hins selda sé trúnaðarmál enn sem komið er.

Enginn eiginlegur rekstur hefur verið í félaginu frá því það var gefið upp til gjaldþrotaskipta. Forgangsverkefni næstu daga verði annars vegar að safna liði til starfa og hins vegar að endurvekja eins og kostur er viðskiptasambönd við fyrirtæki sem Íslenska auglýsingastofan þjónustaði fram að gjaldþrotinu til viðbótar við öflun annarra nýrra viðskipta.

„Það er ögrandi verkefni að taka við þeim kyndli sem Íslenska auglýsingastofan hefur haldið á lofti í leiðandi hlutverki sínu á auglýsingamarkaðnum um langt árabil. Auglýsingastofa á ekki viðskiptavini sína né heldur verkin sem fyrir þá hafa verið framleidd. Hvorugt er því selt eða keypt í þessum viðskiptum en ég tel engu að síður mikil verðmæti fólgin í vörumerkinu og eignum þess. Ég veit að fyrsta fastráðna starfsfólkið sem mun fylkja sér að baki endurvakins reksturs mun fyllilega rísa undir þeim faglegu gæðum sem þetta stóra nafn og langa saga kallar á. Það er spennandi, en krefst líka ákveðinnar jafnvægislistar, að setja saman frá grunni öfluga liðsheild undir þessum merkjum. Við feðgar munum leitast við að tefla þar saman ólíkri þekkingu og áhugasviðum og gæta þess jafnframt að nýi og gamli skóli auglýsingagerðar og markaðsfræða mætist í gagnkvæmri virðingu og samhentu átaki. Ég er sannfærður um að útkoman á eftir að færa okkur skemmtilegt og árangursríkt samstarf, jafnt innanhúss sem í samskiptum við viðskiptavini og samstarfsaðila, á komandi árum," er haft eftir Þormóði Jónssyni.