Eftir að hafa fallið um þriðjung á einum mánuði fram í lok mars hækkuðu bandarísk hlutabréf nær samfellt frá byrjun apríl, og voru farin að sleikja síðasta áramótagildi sitt þegar þau féllu um tæp 6% í síðustu viku.

Bandaríski seðlabankinn tilkynnti svo á mánudag að hann hygðist hefja bein kaup fyrirtækjaskuldabréfa, og við lokun markaða í gær höfðu bréfin hækkað um 3,2% á rúmri viku. Nemur hækkunin nú frá lágpunktinum 23. mars þá 38,5%.

Bankinn hefur ráðist í viðamiklar markaðsaðgerðir frá því að heimsfaraldurinn hófst, auk þess að lækka stýrivexti í núll. Frá áramótum hefur bankinn nú stækkað efnahagsreikning sinn um þrjú þúsund milljarða dala – um 14% landsframleiðslu Bandaríkjanna – eða rúm 70%.

Dekkri mynd á aðalstræti
Áhrif faraldursins á aðra hagvísa hafa sem kunnugt er verið öllu neikvæðari. Gripið hefur verið til víðtækra aðgerða til að stemma stigu við útbreiðslu faraldursins. Samkomu- og útgöngubönn voru lögð á í flestum ríkjum og tugir milljóna starfsmanna ýmist sendir í launalaust leyfi eða sagt upp.

Landsframleiðsla féll um tæp 5% á fyrsta ársfjórðungi – og búist er við allt að 30% samdrætti á öðrum fjórðungi – skráð atvinnuleysi fór úr 3,6% í janúar í 14,7% í apríl, en lækkaði að vísu í 13,3% í maí, og væntingavísitala neytenda féll úr hæstu hæðum í sitt langtum lægsta gildi frá upphafi mælinga 2014.

Til að bæta gráu ofan á svart eru margir hagfræðingar og greiningaraðilar orðnir afar svartsýnir á þá snörpu svokölluðu V-laga viðspyrnu sem flestir spáðu í upphafi, en talað hefur verið um „nike-laga“ viðspyrnu – tilvísun í lögun kennimerkis fataframleiðandans – í því samhengi, og þeir allra svartsýnustu jafnvel spáð því að veiran verði árleg meinsemd og muni varanlega veikja heims-hagkerfið.

Öllu kostað til og línur farnar að skýrast
Ýmsir þættir hafa verið nefndir á móti til að skýra bjartsýni fjármálamarkaða. Ráðist hefur verið í beinar efnahagslegar björgunaraðgerðir upp á þúsundir milljarða, til viðbótar við aðgerðir seðlabankans, og bankinn hefur gefið út að stýrivöxtum verði að óbreyttu haldið við núllið út árið 2022 hið minnsta.

Fjármálamarkaðir horfa almennt séð nokkuð langt fram á veg – sem skýrir óvissufælnina – enda hefðbundin verðmatslíkön byggð á væntu tekjustreymi viðkomandi fjárfestingar um ókomna tíð, þótt vægið fari minnkandi eftir því sem horft er lengra fram í tímann.

Ekki eru þó allir sannfærðir um rökfestu markaðarins. Bent hefur verið á að þótt ríkisútgjöld og peningaprentun geti komið í veg fyrir ofsahræðslu og hrun á mörkuðum til skamms tíma, séu vopnabúr ríkis og seðlabanka ekki óþrjótandi, og verðlagning verðbréfa sem byggir á slíkum aðgerðum því ósjálfbær til lengri tíma litið.

Fjármálaráðuneyti Bandaríkjanna stefnir að því að sækja sér um 3 þúsund milljarða dala lánsfé á yfirstandandi ársfjórðungi, sem er rúmlega fimmfalt fyrra fjórðungsmet í lántöku frá því í fjármálakrísunni 2008.

Seðlabankinn hefur sem fyrr segir þegar lækkað stýrivexti í núll, og þótt nýlega hafi í fyrsta sinn í mannkynssögunni verið látið reyna á neikvæða stýrivexti hinum megin við Atlantshafið, er ljóst að ekki er mikið bit eftir í því stýritæki.

Bankinn hefur því séð sig knúinn til að fara ótroðnar slóðir líkt og kollegar hans í Evrópu og hefja beinar lánveitingar til almennra fyrirtækja, í stað þess að veita aðeins fjármálastofnunum lausafjárfyrirgreiðslu.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .