Karlmaður, sem slasaðist á göngu í hlíðum svissneska fjallsins Breithorn, fær tjón sitt ekki bætt úr kreditkortatryggingu sinni og heldur ekki úr fjölskyldutryggingu sinni. Þetta er niðurstaða úrskurðarnefndar í vátryggingamálum.

Í báðum tilfellum höfnuðu tryggingafélögin kröfu mannsins á þeim grundvelli að slysið hefði átt sér stað „utan alfararleiðar“ en slík slys væru undanþegin samkvæmt skilmálum. Því mótmælti maðurinn enda hefði slysið orðið á þekktu skíðasvæði og hann á göngu á einni auðveldustu og vinsælustu leið fjallsins.

Í niðurstöðu nefndarinnar sagði að gerð væri krafa um að göngugarpar væru vant fjallafólk, búið broddum og klifurbelti. „Jafnvel þótt fallist verði á að æskilegt kynni að vera að hugtakið „alfaraleið“ væri skýrara í umræddum skilmálum og að [félagið] beri hallann af slíkum óskýrleika verður ekki talið að [gönguleiðin] geti með nokkru móti fallið undir það,“ sagði nefndin.