Allt útlit er fyrir að lítið sem ekkert fáist upp í 61 milljarðs kröfur í þrotabú Styttu ehf. Skiptastjóri hefur gefið út að finnist ekki eignir í þrotabúið fyrir skiptafund þann 30. nóvember verði skiptum á Styttu lokið.  Félagið var stofnað í júlí árið 2008 til að kaupa hlut Fons í verslanakeðjunni Iceland fyrir 430 milljónir punda. Félagið fékk fjárhæðina alla að láni, að megninu til hjá Landsbankanum.

Félagið var í eigu tveggja félaga; Stoða, áður FL Group og dótturfélag Baugs, og Blackstar Limited sem var í eigu lykilstjórnenda hjá Iceland.  Skilanefnd Landsbankans hóf rannsókn á málefnum félagsins á árinu 2010 en bankinn leysti til sín hlutabréf félagsins í Iceland Foods. Í auglýsingu í Lögbirtingarblaðinu segir að komi ekki fram ábendingar um eignir í búinu í síðasta lagi á fundinum, má vænta þess að skiptum verði lokið.