Kauphöllin fer ekki varhluta af auknum fjölda smita og vaxandi áhyggjum af faraldrinum. Úrvalsvísitalan lækkaði til að mynda um 1,3% en frá áramótum hefur hún þó hækkað um rúm 20%.

Þá lækkuðu öll félög á aðalmarkaði kauphallarinnar í dag að Origo, Skeljungi og Sýn undanskildum sem stóðu öll í stað. Reitir voru í fararbroddi lækkana en bréf félagsins lækkuðu um 1,99% í dag. Frá síðastliðnum föstudegi hafa bréf félagsins lækkað um 7,7% og standa þau nú í 69 krónum á hlut.

Síminn lækkaði næst mest í dag, um 1.95% og þá standa bréf félagsins í 11,04 krónum. Vís kom þar á eftir með 1,9% lækkun og eru bréf þess nú í 18,1 krónu á hlut. Sé First North markaðurinn tekinn inn í reikninginn lækkaði flugfélagið Play mest allra félaga, um 3,77% í 85 milljóna króna veltu.

Heildarvelta í kauphöllinni í dag nam 3,3 milljörðum króna. Mesta veltan var með bréf Íslandsbanka, um 633 milljónir króna, sem lækkaði um hálft prósentustig.