Ekkert félag lækkaði í 3,6 milljarða viðskiptum dagsins á hlutabréfamarkaði kauphallar Nasdaq á Íslandi, þar sem Úrvalsvísitalan hækkaði um 1,02% og fór í 2.305,86 stig, en lokagengi hennar hefur aldrei verið hærra. Verð fimm félaga stóð þó í stað en talsverðar hkkanir voru á öðrum félögum.

Mest hækkun var á bréfum Sýnar, eða um 7,40%, upp í 37 krónur, í 183 milljóna króna viðskiptum. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í morgun hefur félagið hafið einkaviðræður við erlenda fjárfesta um sölu á fjarskiptainnviðum eins og möstrum, ljósleiðurum og öðrum slíkum óvirkum búnaði sem ekki þarf að skipta reglulega um.

Næst mest hækkun var á bréfum Origo, eða um 5,32%, í 276 milljóna króna viðskiptum þar sem lokagengi bréfa félagsins sem tilkynnti um uppgjör sitt á miðvikudag er komið í 36,13 krónur.

Þriðja mesta hækkunin var svo á bréfum Sjóvá Almenntra trygginga eða um 4,81%, upp í 23,95 krónur, í 314 milljóna króna viðskiptum, sem jafnframt voru fjórðu mestu viðskiptin með bréf í einu félagi í dag.

Mestu viðskiptin voru hins vegar með annað tryggingafélag, VÍS, eða fyrir 661,2 milljónir króna, en bréf þess hækkuðu um 2,62%, upp í 12,34 krónur. Félagið birti ársfjórðungsuppgjör sitt í gær sem sýndi jákvæðan viðsnúning, en Viðskiptablaðið birti svo í dag fréttir þess efnis að félagið hefði fjárfest í hinu nýstofnaða eignastýringarfyrirtæki Vex.

Næst mestu viðskiptin voru svo með bréf Marel, eða fyrir 468 milljónir króna, og hafa bréf félagsins nú náð enn einu sögulega hámarkinu eða 755 krónum, eftir 0,53% hækkun í dag. Þriðju mestu viðskiptin voru loks með bréf Kviku banka, eða fyrir 352,3 milljónir króna, en bréf bankans hækkuðu um 0,90% og nam lokagengi bréfa hans því 12,31 krónu við lokun viðskipta.

Evran komin í 164 krónur

Íslenska krónan veiktist gagnvart öllum helstu viðskiptamyntum sínum í dag utan breska pundsins og norsku krónunnar. Sterlingspundið veiktist um 0,38% á móti krónunni, niður í 180,75 krónur, en norska krónan veiktist um 0,14%, niður í 14,963 krónur.

Evran styrktist hins vegar um 0,18% á móti krónu og fæst nú á 164,16 krónur, Bandaríkjadalur styrktist um 0,02%, upp í 138,63 krónur, og japanska jenið styrktist um 0,05% í 1,3227 krónur.

Styrking svissneska frankans líkt og evrunnar gagnvart krónu nam 0,18% og fæst hann nú á 153,03 krónur, styrking dönsku krónunnar nam 0,19% og fæst hún nú á 22,062 krónur, og styrking þeirrar sænsku gagnvart íslensku krónunni nam 0,08% up í 15,805 krónur.