Almenn sátt ríkir um það að nauð­synlegt sé að fjárfesta í innviðum hagkerfisins. En hver á að borga fyrir þær? Stefán Broddi Guðjónsson, forstöðumaður greiningardeildar Arion banka, sagði á kynningarfundi greiningardeildarinnar á hagspá sinni síðastliðinn miðvikudag að hið opinbera þyrfti að skoða leiðir til fjármögnunar, skilgreina hlutverk einkaaðila í uppbyggingu innviða og kanna hvaða verkefni mætti fjármagna með notendagjöldum.

Nokkrir stjórnmálamenn hafa lagt fram þá hugmynd að greitt verði fyrir innviðauppbyggingu með arðgreiðslum úr bönkunum. Að hámarki leyfa eiginfjárkröfur bankanna arðgreiðslu upp á lið­ lega 130 milljarða króna og myndu 80 milljarðar renna til ríkisins. Með víkjandi skuldabréfi gæti sú fjárhæð næstum tvöfaldast og orðið um 170 milljarðar. Arðgreiðslur úr bönkunum geta þannig hjálpað ríkinu við fjármögnun innviðaverkefna, en þær draga um leið úr getu ríkisins til að greiða niður skuldir.

Hvað lífeyrissjóðina varðar benti Stefán Broddi á að sjóðirnir væru uppteknir af því að ráðstafa sínu fé í sjóðsfélagalán og erlendar eignir. Þeir væru því með lítið ráðstöfunarfé fyrir hreinar fjárfestingar í innviðum.

Hið opinbera gæti því fjármagnað innviðafjárfestingar með sköttum á heimili og fyrirtæki, aukinni skuldsetningu (eða hægari niðurgreiðslu skulda) eða notendagjöldum. Arð­greiðslur úr bönkunum gætu einnig hjálpað til. Þá gætu einkaaðilar lagt hönd á plóg, sem og erlendir fjárfestar. Innviðauppbygging þyrfti þó að taka mið af hagsveiflunni og því hvaða aðföng séu til staðar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .