Hans Jørgen Elnæs, norskur sérfræðingur í flugrekstri, segir engar líkur á því að Icelandair verði gjaldþrota. Frá þessu er greint á vef Túrista .

„Þetta er jákvæð niðurstaða í þessari alvarlegri deilu. Þessi átök hafa þó vafalítið valdið skaða innan Icelandair og það mun taka einhvern tíma fyrir sárin að gróa,” segir Elnæs.

Elnæs hefur fylgst með Icelandair og íslenskum flugrekstri í gegnum tíðina og meðal annars rætt stöðu WOW og Play hér á síðum Túrista. Í sumarbyrjun fór hann yfir stöðu Icelandair í viðtali við Kastljós RÚV og hann tjáir sig reglulega um flugrekstur í skandinavísku viðskiptapressunni.

„Ríkisstjórnin mun örugglega gera allt sem þarf til að styðja við fyrirtækið í ljósi mikilvægi þess fyrir landið. Icelandair er líka þekkt vörumerki og með gott orðspor líkt og ráðamenn þjóðarinnar eru vafalítið meðvitaðir um. Eyríki í miðju Atlantshafi getur heldur ekki tekið áhættuna hvað samgöngur varðar. Að setja allt sitt traust á erlend flugfélög sem Ísland hefur þá enga stjórn yfir er ekki skynsamlegt og ennþá eru áformin varðandi Play óljós.“