Hafrannsóknastofnun hefur gefið út ráðleggingar um að veiðar á rækju í Arnarfirði og Ísafjarðardjúpi verði ekki heimilaðar fiskveiðiárið 2017 til 2018.

Vísitala veiðistofns rækju í Arnarfirði var í sögulegu lágmarki og var undir varðúðarmörkum stofnsins. Jafnframt var nýliðunarvísitala langt undir meðaltali og lítið af 1 árs rækju fékkst í stofnmælingu Hafrannsóknarstofnunnar. Niðurstöður stofnmælingarinnar benda því til að stofninn muni haldast lítill á næstu árum. Lítið mældist af þorski og ýsu miðað við árin 2004–2016.

Vísitala veiðistofns rækju í Ísafjarðardjúpi hefur farið lækkandi frá árinu 2012 og haustið 2017 var hún undir varúðarmörkum stofnsins. Lítið var af þorski í fjörðunum en magn ýsu var svipað og haustið 2016. Stofnmælingin bendir því til að rækjustofninn í Ísafjarðardjúpi muni ekki stækka á næstu árum. Vísitala þorsks var sú lægsta frá aldamótum en vísitala ýsu hefur haldist há frá 2004.