Í fyrsta sinn í marga áratugi eru engar stóriðjuframkvæmdir á döfinni næstu árin. Staðan nú er t.d. töluvert frábrugðin því sem var bæði í byrjun hagvaxtarskeiðsins fyrir fimm árum og í niðursveiflunni eftir aldamótin síðustu en þá voru uppi mikil virkjana- og stóriðjuáform. Þessa breyttu stöðu má m.a. rekja til stefnubreytingu stjórnvalda sem er vafalaust nátengd breyttu viðhorfi kjósenda til virkjana- og stóriðjuframkvæmda. Fyrir vikið er þjóðin á leið í niðursveiflu án stuðnings frá stóriðjuáformum eins og hún hefur getað gert síðan síldin hvarf árið 1964.

Atvinnuvegafjárfesting dróst saman í fyrra um 3,4% og samkvæmt nýrri spá Hagstofunnar er reiknað með að samdrátturinn verði meiri í ár eða 4,5%. Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins, segir minni fjárfestingu í stóriðju- og orkugeiranum m.a. vera á bak við þennan samdrátt en mörgum verkefnum á þessu sviði hafi verið lokið síðastliðin tvö ár. „Breytingin er hins vegar sú að engin ný stór verkefni eru á döfinni til að taka við slakanum,“ segir Ingólfur.

Þetta eru aðrar horfur en voru þegar síðast hagvaxtarskeið hófst fyrir fimm árum en þá voru töluverðar fjárfestingar í pípunum vegna uppbyggingar í vinnslu á kísil eða fjögur stór verkefni: á Bakka við Húsavík, Grundartanga í Hvalfirði og tvö í Helguvík á Suðurnesjum. Auk þess lá fyrir að samhliða yrði töluverð uppbygging í orkuöflun m.a. á Þeistareykjum og vegna stækkunar Búrfellsvirkjunar. Eitt af þessum áformuðu kísilverum varð að veruleika síðasta vor þegar kísilver PCC BakkiSilicon var gangsett fyrir norðan. Annað var byggt en varð fljótlega gjaldþrota, kísilver United Silicon í Helguvík. Uppbygging hinna tveggja, Thorsil í Helguvík og Silicor Material á Grundartanga, hefur tafist og óvíst hvort af þeim verður.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .