Sigurður Atli Jónsson, forstjóri Kviku, segir ekkert hæft í orðrómum þess efnis að bankinn hafi átt nokkurn þátt í lækkun hlutabréfaverðs Icelandair fyrr í mánuðinum. Í frétt Markaðarins fyrr í febrúar var því haldið fram að stjórnendur Icelandair hefðu síðasta sumar beint óánægju sinni að Kviku vegna meintrar skortsölu bankans á bréfum fyrirtækisins. Sigurður Atli segir Kviku einungis hafa stundað eðlileg viðskipti.

„Sem fjárfestingabanki og leiðandi aðili í markaðsviðskiptum sinnum við auðvitað heilmiklu af hlutabréfaviðskiptum í þeim félögum sem skráð eru á markað. Það eru alltaf jafn­miklar fjár­hæðir á bakvið kaup og sölu og það er eng­inn fótur fyrir því að við höfum unnið gegn félag­inu með skipu­lögðum hætti, enda væri það ólög­legt. Það er mjög eðlilegt að gengi hlutabréfa hreyfist á mörkuðum, þar spila væntingar fjárfesta inn í. Okkur hafa ekki borist neinar ásakanir hingað til og alls ekki frá félaginu sem slíku. Þarna er eitthvað úr lausu lofti gripið,“ segir Sigurður í ítarlegu viðtali í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.

Hann sýndi blaðamanni sömuleiðis opinberar tölur yfir þau viðskipti í Icelandair sem Kvika hefur komið að. Þótt bankinn hafi verið með eilítið meiri sölu en kaup var ekki um neinn teljandi mun að ræða.

„Það hefur mögulega verið ráðgjöf okkar til viðskiptavina á einhverjum tímapunkti að selja frekar en kaupa en þá var það bara mjög góð ráð­ gjöf í ljósi niðurstöðunnar. Sömuleiðis láta margir viðskiptavinir okkur einfaldlega framkvæma viðskipti fyrir sig án þess að þau byggi á okkar ráðgjöf, þannig að hér er að sjálfsögðu aðeins um eðlileg viðskipti að ræða.“

Áhugavert tækifæri í Arion

Á dögunum voru færðar fréttir þess efnis að fjárfestahópur á vegum Kviku hefði gert tilboð í 1,46% hlut í Arion banka fyrir 2,2 milljarða. Sigurður Atli segir Kviku hafa séð þarna tækifæri fyrir sína viðskiptavini og tekur margt jákvætt út úr tilrauninni þó tilboðið hafi ekki verið samþykkt.

„Þetta er gott dæmi um það sem Kvika gerir sem sérhæfður fjárfestingabanki. Við sáum þarna tækifæri sem við töldum mjög áhugavert fyrir Kaupþing, Arion banka og okkar viðskiptavini. Því var mjög vel tekið, bæði af hálfu Kaupþings og meðal okkar viðskiptavina og við erum mjög ánægð með að hafa nýtt þetta tækifæri. Það gaf okkur mjög verð­ mætar upplýsingar og var ánægjulegt ferli í alla staði. Niðurstaðan var sú að tilboðinu var ekki tekið, en það er eitthvað sem við höfum ekki stjórn á og þetta er hvorki fyrsta né síðasta tilboðið sem við gerum og er ekki tekið, það er eðlilegt. En verkefnið sem slíkt var mjög ánægjulegt og verðmætt fyrir okkur að fara í gegnum,“ segir Sigurður Atli. Aðspurður sagði hann engar fyrir­ ætlanir í gangi um annað tilboð, en í Markaðnum í gær var fjallað um að Kaupþing væri nú á lokametrunum með sölu á 50% í bankanum .