Haukur Hafsteinsson, framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, segir sjóðinn leggja mikla áherslu á sjálfstæði fyrirtækja sem fjárfest er í og segir hann ekki reyna að hafa áhrif á rekstur og stefnumótun fyrirtækja í samkeppni umfram ákvarðanir sem teknar eru á hluthafafundum.

Í þarsíðasta Viðskiptablaði var fjallað um eignarhald skráðra hlutafélaga í samkeppni síma-, trygginga- og fasteignamarkaði. Þar kemur meðal annars fram að sömu hluthafar eiga um 57% í bæði Símanum og Vodafone og yfir 50% í TM og VÍS . Svipaða sögu er að segja af fasteignamarkaði .

Flestir eru hluthafarnir lífeyrissjóðir og lýsti Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, yfir áhyggjum af stöðu mála . Stærstu hluthafarnir eru Lífeyrissjóður verzlunarmanna, LSR og Gildi. Haukur segist einungis geta talað fyrir hönd eigin sjóðs en telur svipuð sjónarmið eiga við um þá alla.

Ekki ástæða til að hafa áhyggjur

„Við teljum að það sé ekki ástæða til þess að hafa áhyggjur af eignarhaldinu eins og það er. Við gerum okkur fulla grein fyrir því að eign á verulegum hluta í fyrirtækjum á sama markaði krefst sérstakrar aðgæslu sjóðsins. Við leggjum áherslu á það að fyrirtæki á samkeppnismarkaði sem sjóðurinn fjárfestir í séu í hvívetna rekin sem sjálfstæðir keppinautar,“ segir Haukur í samtali við Viðskiptablaðið.

Sjóðurinn meti í hverju tilfelli fyrir sig hvort það sé ástæða til að beita sér fyrir framboði tiltekins einstaklings til stjórnar eða hvort afstaða sé tekin til þeirra framboða sem berast á hluthafafundi. Þar sé fyrst og fremst verið að stuðla að því að sem hæfastir einstaklingar séu valdir í stjórnir fyrirtækjanna.

„En við lítum aldrei þannig á að við „eigum“ einhvern stjórnarmann í einhverju fyrirtæki og þegar stjórnarmenn hafa verið kosnir á hluthafafundi eru þeir fulltrúar allra hluthafa, ekkert frekar okkar heldur en annarra, og við gerum þá kröfu að þeir hafi alltaf hagsmuni fyrirtækisins að leiðarljósi. Við sjáum ekki merki þess að það hafi stuðlað að minni samkeppni að sjóðurinn eigi í fleiri en einu fyrirtæki á sama samkeppnismarkaði,“ segir Haukur.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .