Ágústa Johnson, framkvæmdastjóri og einn af eigendum heilsuræktarstöðvarinnar Hreyfingar, hefur verið viðloðandi líkamsræktargeirann hér á landi í rúmlega þrjá áratugi. Hún segir að margt hafi breyst frá því að hún sneri aftur til Íslands eftir nám og stofnaði sína fyrstu líkamsræktarstöð, en Hreyfing á rætur sínar að rekja til ársins 1986.

„Ég var nýkomin heim úr námi frá Bandaríkjunum, þar sem ég stundaði nám í íþrótta- og tómstundafræði, þegar eróbikk var að ryðja sér til rúms hér á landi. Það voru bara ein eða tvær lyftingarstöðvar í Reykjavík á þessum tíma en ég var sjálf búin að kynnast eróbikk úti í Bandaríkjunum, sem var gríðarlega vinsælt þar á þessum tíma. Þegar ég sneri svo heim eftir námið árið 1986, hafði Jónína Benediktsdóttir samband við mig og vildi stofna nýja líkamsræktarstöð.  Við hófum því samstarf og stofnuðum eróbikkstöðina Stúdíó Jónínu og Ágústu, í Borgartúni. En tveim árum eftir að við stofnuðum stöðina þá flutti Jónína af landi brott og seldi mér fyrirtækið."

Hreyfing varð svo til árið 1998, þegar stöðin sameinaðist annarri líkamsræktarstöð sem hét Máttur og hófst þá samstarf Ágústu og Gríms Sæmundsen, forstjóra Bláa Lónsins, sem er enn í gangi í dag.

Líkamsræktarbransinn var óskrifað blað

Að sögn Ágústu var umhverfið á Íslandi allt annað þegar hún var að hefja störf í líkamsræktargeiranum á sínum tíma.

„Líkamsræktarbransinn var glænýr á þessum árum og í raun alveg óskrifað blað. Við Jónína opnuðum til að byrja með eina litla stöð sem var um það bil 250 fermetrar, með einum sal og tveimur litlum búningsklefum. Það var í raun nánast ekkert sem heitið getur samkeppni og við vorum bara að gera það sem okkur þótti skemmtilegt. Í mínum huga var þetta svolítið eins og leikur þá, maður leit ekki á þetta sem einhvern samkeppnisrekstur. En svo breyttust hlutirnir auðvitað síðar.

Frá þessum tíma hefur orðið mikil þróun, þótt hún hafi verið frekar hæg í byrjun. Það var ekki fyrr en í kringum árið 2000 sem líkamsræktarbransinn fór að þroskast hér á Íslandi og alvöru samkeppni fór að myndast, og meiri metnaður í að opna nýjar og fínni stöðvar."

Ágústa segir að viðskiptaumhverfi líkamsræktargeirans hafi í raun verið afar takmarkað á þeim tíma sem hún og Jónína opnuðu líkamsræktarstöð sína.

„Við settum ekki upp neina viðskipta- eða rekstraráætlun,  það var bara ráðist í hlutina og reddað því sem þurfti að redda. Reksturinn var einfaldur og skemmtilegur og áhuginn dreif mann áfram." En svo hafi umhverfið þróast og huga hafi þurft að formlegri rekstri er samkeppni fór að harðna.

„Stöðin gekk svo vel í byrjun að tveimur árum eftir að við byrjuðum stækkuðum við þrefalt og fórum í um 700-800 fermetra og svo stækkuðum við aftur tvisvar eða þrisvar á þeim stað.

Á einhverjum tímapunkti þá fór maður að vera svolítið kærulaus því þetta hafði allt gengið svo vel og verið auðvelt. Það kom að því að skuldirnar voru farnar að aukast og róðurinn að þyngjast og því þurfti maður að láta hendur standa fram úr ermum. Það er hætt við slíkri þróun þegar gengur mjög vel og frekar lítið fyrir hlutunum haft.

Síðan þegar við sameinuðumst Mætti, þá þurfti verulega að taka til hendinni og endurstilla. Þarna voru tvö fyrirtæki að sameinast og ég myndi segja að frá þessu skeiði höfum við verið farin að reka þetta af alvöru - sem sagt sem alvöru „business" en ekki sem skemmtilegt áhugamál eins og í upphafi. En eftir því sem maður fer að sinna rekstrinum af meiri alvöru, því betur gengur hann og það er búið að vera gaman að þróa reksturinn og þroskast með honum í gegnum öll þessi ár."

Stórt verkefni að gera líkamsrækt skemmtilega

Umfang starfsemi Hreyfingar hefur frá stofnun stöðvarinnar margfaldast og margt vatn runnið til sjávar frá því að Ágústa kom að stofnun sinnar fyrstu líkamsræktarstöðvar fyrir rúmum 30 árum.

„Starfsemin hefur margfaldast að stærð. Húsnæði stöðvarinnar okkar í Glæsibæ er um 3.600 fermetrar og erum með í kringum 6.000 viðskiptavini og veltan hjá okkur hefur allar götur verið stigvaxandi. Við höfum lagt áherslu á það að vera með gott og fjölbreytt þjónustuframboð og veltan hefur vaxið vel ár frá ári, þrátt fyrir að vera einungis með eina stöð. Þjónustan er í stöðugri þróun og við bjóðum mjög reglulega upp á ný námskeið og nýjar aðildarleiðir. Við leitum stöðugt nýrra leiða til að gera þjónustuframboðið sem fjölbreyttast og skemmtilegast fyrir viðskiptavini okkar.

Við erum að selja þjónustu sem allir vita að þeir hafa mjög mikið gagn af og bætir líf þeirra og heilsu, en þó er það svo að mörgum þykir hálfgerð kvöð að mæta í ræktina.  Það er því stórt verkefni hjá okkur að gera líkamsrækt skemmtilega og það er það sem við höfum haft að leiðarljósi í gegnum árin," segir hún.

„Við erum með stóran viðskiptavinahóp sem hefur verið hjá okkur í áratugi. Það er mjög ánægjulegt og við erum þakklát fyrir okkar góðu viðskiptavini. Auðvitað er alltaf einhver hópur sem er að flakka á milli stöðva og svo hætta sumir að vera meðlimir af ýmsum ástæðum.

Ánægjustuðull viðskiptavina okkar með þjónustuna okkar er mjög hár og til marks um það eru um 94% þeirra viðskiptavina sem tóku þátt í viðhorfskönnun sem við stóðum fyrir sem myndu mæla með Hreyfingu við aðra. Slíkt gerist ekki af sjálfu sér og má þakka okkar frábæra starfsmannahópi fyrir þennan góða árangur."

Nánar er fjallað um málið í 25 ára afmælistímariti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift á sérstöku afmælistilboði eða pantað tímaritið .