Íbúðamarkaðurinn hefur mörg einkenni þenslu að því er fram kemur í skýrslu sem Greining Íslandsbanka birti í vikunni. Heildarfjöldi íbúða á söluskrám hefur undanfarin ár minnkað umtalsvert og hafa þær ekki verið færri svo langt sem gögn Þjóðskrár ná. Á árinu 2016 hafa að meðaltali verið 1.270 íbúðir auglýstar til sölu. Til samanburðar voru að meðaltali 4.450 íbúðir á skrá árið 2010 en þá var hámarkinu náð að þessu leyti. Íbúðum á söluskrá því fækkað um tæp 71% frá 2010.

Á þessu ári hefur að jafnaði tekið 2,13 mánuði að selja íbúð. Þessi tala hefur ekki áður mælst svo lág en meðalsölutími íbúða árið 2007 var 2,49 mánuðir.  Í apríl 2016 fór meðalsölutíminn niður fyrir 2 mánuði eða í 1,87 mánuð en það hefur aðeins tvisvar gerst frá árinu 2006 en það var í júní og ágúst 2007.

Þrátt fyrir að markaðurinn hafi mörg einkenni þenslu telur Greining Íslandsbanka að ekki sé bóla.

„Verð íbúðarhúsnæðis á móti launum, leiguverði og byggingarkostnaði er ekki langt frá langtíma meðaltali," segir í skýrslunni. „Gefur það til kynna að ekki sé verðbóla á íbúðamarkaði. Í samanburði á milli aðildarríkja OECD er Ísland eitt fárra landa, þar sem verð er nú nálægt jafnvægi."

Greining Íslandsbanka spáir því að verð íbúðarhúsnæði hækki um 9,3% í ár, 11,4% á því næsta og 6,6% á árinu 2018. Er því spáð að að raunvirði muni hækkunin nema 7,8% í ár 9,7 árið 2017 og 3,4 árið 2018.

„Ein ástæða hækkunar húsnæðisverðs um þessar mundir er hröð hækkun kaupmáttar launa. Gerum við ráð fyrir að kaupmáttur launa muni aukast um 10,0% á þessu ári, 5,2% á því næsta og 2,3% á árinu 2018. Aukinn kaupmáttur launa mun því áfram skapa þrýsting til hækkunar á verði íbúða."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .