Eftir að samkomulag náðist við flugfélagið Ernir, elsta flugfélag landsins, vegna 98 milljóna króna skuldar af ógreiddum lendingarleyfum og öðrum gjöldum til ISAVIA hefur kyrrsetningu Dornier skrúfuþotu félagsins frá í morgun verið breytt þannig að félagið geti haldið áfram viðhaldi á henni.

Hörður Guðmundsson eigandi Ernis segir í samtali við Morgunblaðið að hann sé búinn að fá vélina til baka, en hún var í skoðun þegar hún var kyrrsett. Samkvæmt áréttingu frá ISAVIA er kyrrsetning vélarinnar þó enn í gildi.
Fréttin hefur verið uppfærð.

„Það er eins og það hafi verið setið fyrir henni. Svona er bara lífið, það er ekkert við því að gera. Við viðurkenn­um að við erum í skuld en við erum ekki einir um það,“ segir Hörður sem þykist vita að enginn annar sem skuldi ríkisfyrirtækinu hafi verið stöðvaðir. „Þrátt fyr­ir þetta upphlaup sem kom, má segja með stórum stöfum að það er engin WOW fyrir dyrum.“

Engar tafir verða vegna kyrrsetningarinnar enda stóð ekki til að fljúga henni strax, erlendir flugmenn hennar og þjálfunarsjórar eru í fríi. Erlendir tæknimenn séu hins vegar að þjálfa starfsfólk Ernis í meðferð hennar.

Hálfs árs bið eftir að fá heimild til að nota vélina

Vélin sem er 32 sæta barst félaginu í hendur seinnipartinn í maí síðastliðnum , en fyrir var stærsta vél félagsins með 19 farþegasæti. Þessi vél er jafnframt mun hraðfleygari, flýgur á 620 km hraða á klukkustund en Jetstream vélarnar 19 sæta hafa 420 km flugraða á klukkustund.

Ætlunin var að nota vélina á öllum áfangastöðum félagsins, en Hörður nefndi á sínum tíma sérstaklega Húsavík, Hornafjörð og Vestmannaeyjar auk leiguflugs.

Um mitt sumar hafði vélin þó ekki enn verið tekin í notkun, vegna t afa við að fá skráningu vélarinnar í gegn , skjöl hafi ekki borist fyrr en mánuði eftir að þotan sjálf kom, og þá var enn mikil pappírsvinna framundan og því ekki hægt að nýta hana á háannatíma í kringum Verslunarmannahelgina.

Það var ekki fyrr en 5. desember síðastliðinn sem fréttir bárust af því að vélin gat farið í sína fyrstu áætlunarferð , sem var til Húsavíkur.