Lífeyrissjóðirnir flýta sér hægt í auknar erlendar fjárfestingar í kjölfar fulls afnáms fjármagnshafta fyrir rúmum tveimur mánuðum. Undanfarin ár höfðu þeir fengið sérstakar heimildir frá Seðlabankanum til erlendra fjárfestinga.

Davíð Rúdólfsson, forstöðumaður eignastýringar og staðgengill framkvæmdastjóra hjá Gildi, segir að sjóðurinn sé fyrst og fremst farinn að leggja aukna áherslu á og verja meiri tíma í að skoða erlend fjárfestingartækifæri heldur en gert var í haftaumhverfi. Hann segir Gildi ávallt hafa nýtt þær heimildir sem sjóðurinn fékk frá Seðlabankanum til erlendra fjárfestinga fyrir afnám hafta.

„Einhverjir hafa gagnýnt það, að við skyldum auka erlendar fjárfestingar þegar krónan var ekki eins sterk og hún er núna, en það er auðvelt að horfa á það í baksýnisspeglinum. Á sínum tíma horfðum við til þess hversu mikilvæg áhættudreifing væri til lengri tíma. Að sama skapi horfð­ um við til þeirrar óvissu sem við og aðrir lífeyrissjóðir bjuggum við vegna haftanna og mjög svo takmarkaðra möguleika til að dreifa áhættunni utan landsteinanna,“ segir Davíð. Það hafi verið metið mikils virði að nýta þær heimildir sem þá stóðu til boða.

Davíð segir Gildi horfa til þess að auka frekar við erlendar fjárfestingar í kjölfar haftaafnáms. Þó þurfi að huga að ýmsum þáttum, ekki síst gengi krónunnar, þróunar á mörkuðum og þeirra fjárfestingartækifæra sem í því felast hverju sinni, innanlands sem erlendis. Meðal þess sem taka þarf tillit til nú er að hlutabréf á erlendum mörkuðum hafa hækkað nokkuð mikið í verði að undanförnu.

„Gildi er í dag með um 27% af eignum sínum í erlendri mynt og við sjáum fyrir okkur að auka það hlutfall á næstu árum, hversu hratt og hversu mikið verður að ráðast af markaðsaðstæðum hverju sinni,“ segir Davíð. Samkvæmt fjárfestingarstefnu sjóðsins fyrir árið 2017 er horft á að auka hlutfall erlendra eigna í 28,5% á árinu en hvort það gangi eftir verði tíminn að leiða í ljós.

Reyna ekki að tímasetja gengissveiflur

Friðrik Nikulásson, forstöðumað­ ur eignastýringar hjá Lífeyrissjóði verslunarmanna, segir fullt afnám hafta fyrst og fremst fela í sér aukinn sveigjanleika fyrir sjóðinn.

„Áður fyrr var þetta allt í skömmtum, við þurftum að kaupa ákveðinn skammt í hverjum mánuði, en nú höfum við frelsi til að gera þetta eftir þörfum,“ segir Frið­rik. Í því felist þægindi m.a. vegna þess að greiðsluflæði inn í sjóðinn er mismunandi eftir mánuðum. Friðrik segir Lífeyrissjóð verslunarmanna ávallt hafa nýtt heimildir sínar til erlendra fjárfestinga að fullu en að hlutfall erlendra eigna af heildareignum sé enn lægra en sjóðurinn stefnir að.

„Hlutfall okkar er lægra heldur en fjárfestingarstefna okkar segir til um þannig að við erum markvisst að auka þetta jafnt og þétt. Það er enginn asi, þetta er bara gert yfir tíma,“ segir Friðrik. Hlutfallið í dag er um 27-28 pósent en fjárfestingarstefnan í dag er 31 prósent. Friðrik segir að til langs tíma sé markmiðið að erlendar eignir séu þriðjungur af eignasafninu.

Frið­rik viðurkennir að gríðarleg styrking krónunnar hafi vissulega áhrif á ákvarðanir sjóðsins, en hún var meginástæða þess að raunávöxtun hans var neikvæð í fyrra. Hins vegar sé afar erfitt að tímasetja gengissveiflur og því haldi sjóðurinn áfram að færa sig út með eignir í skömmtum.

„Við erum ekki að reyna að tímasetja einhverjar gengissveiflur á krónunni upp á dag, heldur frekar að byggja upp erlendu stöðuna. Við erum búnir að vera í svelti frá 2008 þannig það er augljóst að við þurfum að breyta því,“ segir Friðrik.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .