Enn virðist litagleði í bifreiðakaupum Íslendinga vera af skornum skammti, og voru gráir og hvítir bílar í miklum meirihluta nýskráðra bíla á síðasta ári. Hins vegar hefur verið mikil fjölgun, eða 38,5% í nýskráningum tengitvinnbíla, meðan fækkun var í nýskráningum annarra svokallaðra vistvænni bíla á árinu.

Þetta er meðal tölfræði sem fram kemur í nýrri árbók bílgreina fyrir árið 2019, sem Bílgreinasambandið hefur gefið út og segir frá á facebook síðu sinni . Eins og áður segir voru rétt rúmlega 65% allra bíla sem skráðir voru á síðasta ári voru annaðhvort gráir, (39,1%) eða hvítir (26%).

Þrátt fyrir ákveðna íhaldssemi í litavali bifreiða, var þriðji vinsælasti liturinn þó rauður. Voru um 11% nýrra bíla sem báru þann lit, næst á eftir voru svartir bílar með um 8,7% hlutdeild. Bláir og brúnir bílar fylgdu svo eftir, sá fyrrnefndi með 6,3% hlutdeild og síðarnefndi 6,9%. Eftir að hafa loksins komist á lista í síðustu árbók, þá var engin bleikur fólksbíll nýskráður á síðasta ári.

Rafmagns- og metanbílum fækkar

Áherslur einstaklinga á að velja umhverfisvænni kosti virðast jafnframt sífellt að verða sterkari þó hin margrómuðu orkuskipti séu ekki að fullu komin, en nálgast, með tilkomu fleiri ökutækja sem bjóða upp á annarskonar aflgjafa en jarðeldsneyti eingöngu.

Metanbílar reka lestina á eftir rafmagnsbílum og tengiltvinnbílum í nýskráningum á síðasta ári en þá voru skráðir 144 nýir metan bílar. Fækkaði nýskráningum slíkra bíla um 55% samanborið við fyrra ár.

Einnig varð fækkun á nýskráningu rafmagnsbíla milli ára, alls voru 784 nýskráðir rafmagnsbílar árið 2018, 7,4% færri en árið á undan. Alls hafa 9.979 bílar verið skráðir sem keyra fyrir tilstilli metans, rafmagns eða tvíorku. Tengiltvinnbílar eru áfram vinsælastir í flokki umhverfisvænni bíla, jókst skráning slíkra bíla um 38,5% milli ára og voru 2.868 nýir bílar skráðir á árinu.

Sé miðað við að allir skráðir bílar í þessum þremur flokkum séu í notkun, þá eru um 1.477 metanbílar í umferð, 2.677 rafmagnsbílar og 5825 tengiltvinnbílar, síðastnefndi hópurinn stendur fyrir tæplega 59% bíla í flokknum.