Sem fyrr er afgerandi munur á afstöðu þingmanna eftir því í hvaða flokki þeir eru. Viðskiptablaðið kannaði afstöðu allra 19 þingmanna Sjálfstæðisflokks, en þar af voru 15 sem sögðust myndu kjósa já, tveir myndu sitja hjá og tveir vildu ekki gefa upp hvernig þeir myndu ráðstafa atkvæði sínu. Enginn sagðist vera á móti frumvarpinu.

Meðal framsóknarmanna var öllu meiri andstaða við frumvarpið. Ekki náðist í fjóra þingmenn af 19, en af þeim 15 sem náðist í sögðust aðeins þrír myndu kjósa með frumvarpinu. Átta sögðust hins vegar vera á móti en fjórir vildu ekki gefa upp afstöðu sína.

Breytt afstaða Bjartrar framtíðar

Líkt og fyrir ári var enginn í hópi þingmanna Samfylkingar eða Vinstri-grænna sem sögðust myndu greiða atkvæði með frumvarpinu. Af þeim sjö sem náðist í hjá Samfylkingu sögðust þrír myndu greiða atkvæði á móti en fjórir vildu ekki gefa upp afstöðu sína. Af sex þingmönnum Vinstrigrænna sem náðist í sögðust allir vera á móti, en þingmenn flokksins eru í heild sjö.

Meiri stuðningur er við frumvarpið meðal þingmanna Bjartrar framtíðar nú en í fyrra, þar sem þrír þingmenn af sex segjast myndu ljá frumvarpinu stuðning í atkvæðagreiðslu. Í fyrra var aðeins einn þingmaður sem var þeirrar skoðunar. Tveir þingmenn myndu vera andsnúnir frumvarpinu en einn kveðst myndu sitja hjá.

Í hópi Pírata eru tveir þingmenn sem hyggjast kjósa með frumvarpinu en einn sem myndi sitja hjá. Fyrir ári sögðust tveir myndu sitja hjá og einn kjósa með.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .