Ekkert félag í fjármálageiranum, sem Viðskiptablaðið hefur náð á, kannast við að hafa sagt upp 35 manns í hópuppsögn í gær. Líkt og Pétur postuli forðum hafa þau öll afneitað því að hafa nokkuð með slíkt að gera.

Vísir sagði frá því á tólfta tímanum að 35 manns hefði verið sagt upp en það hafði miðillinn eftir Unni Sverrisdóttur forstjóra Vinnumálastofnunar. Sagði hún enn fremur að uppsögnin hefði átt hér stað hjá fyrirtæki í fjármálageiranum. Síðan þá hefur blaðið reynt að kanna hvar umrædd uppsögn átti sér stað.

Skemmst er frá því að segja að enginn banki, ekkert kortafyrirtæki, ekkert tryggingafélag eða endurskoðunarfélag vill gangast við því að hafa sent téða tilkynningu til Vinnumálastofnunar. Sömu sögu er að segja af innheimtufélögum sem blaðið hefur náð á og ekki áttu uppsagnir hér stað hjá CreditInfo. Blaðið gekk meira að segja svo langt að kanna hvort uppsagnir hefðu átt sér stað hjá Seðlabankanum, þótt hann verði seint talinn fyrirtæki, og ekki var það þar.

Samkvæmt almennri málvenju eru því ekki mörg félög eftir sem falla innan sniðmengisins fyrirtæki í fjármálageiranum, ekki nema sú skilgreining sé víðtækari hjá Vinnumálastofnun en almennt gengur og gerist.

Friðbert Traustason, framkvæmdastjóri Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja, segir enga tilkynningu um hópuppsögn hafa borist stéttarfélaginu. Spurning sé hins vegar hvort umrætt félag hafi sent Vinnumálastofnun skeyti en hyggist tilkynna þær starfsfólki eftir helgi.

Fyrr á þessu ári sektaði Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands Arion banka um 88 milljónir króna fyrir að hafa dregið það að tilkynna innherjaupplýsingar. Ástæða sektarinnar var sú að bankinn hafði ekki tilkynnt um hópuppsögn eins skjótt og unnt var. Var það gert 22. september en fregnir um það höfðu spurst út þann 6. september.

Uppfært 14.17 Í fyrri útgáfu fréttarinnar stóð að ekki hefði náðst á Sjóvá. Það á ekki lengur við því Sjóvá hefur staðfest að það sé ekki félagið sem um ræðir. Texta fréttarinnar hefur því verið breytt.