Við erum alveg sammála veitu- og orkufyrirtækjunum um að kerfið er óskilvirkt og það eru óþarflega mörg skref í því,“ segir Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar. Átakshópur á vegum stjórnvalda kynnti í lok febrúar tillögur með það að markmiði að einföldun á leyfisveitingakerfi við lagningu raflína. Meðal annars með því að heimila skipun sérstaka stjórnsýslunefnda þegar leggja á rafstrengi yfir sveitarfélagamörk sem yrðu skipuð fulltrúum allra sveitarfélaga sem raflínan á að liggja um.

„Á hverju ári eru um fjögur hundruð breytingar á deili- og aðalskipulagi. Við erum mjög lítil skrifstofa og höfum enga möguleika á að fylgjast með öllum þessum breytingum. Svo við erum alls ekki á móti einföldun og aukinni skilvirkni en það má ekki vera á kostnað náttúruverndar,“ segir Auður. Þrátt fyrir að kerfið sé flókið þá hafi í reynd fátt komið í veg fyrir að af framkvæmdum verði að lokum. „Okkur finnst vanta í kerfið að ákvörðun sé tekin um hvort umhverfisáhrif framkvæmda séu of lítil eða of mikil. Ef fyrirtækin hafa fjármagn og þolinmæði til að hoppa í gegnum alla hringina fá þau leyfi,“ segir Auður.

„Það er mikilvægt að innleiða EES tilskipanir um umhverfismat. Þar kemur skýrt fram að umhverfismatið sjálft verður að liggja til grundvallar veitingu leyfis en því er ekki fyrir að fara í dag,“ segir hún.

Auður bendir á að fyrir byggingu Kárahnjúkavirkjunar hafi Skipulagsstofnun bæði framkvæmt umhverfismat og tekið bindandi ákvörðun um hvort veita ætti framkvæmdaleyfi. Sif Friðleifsdóttir, þáverandi umhverfisráðherra, felldi ákvörðun Skipulagsstofnunar úr gildi að hafna byggingu Kárahnjúkavirkjunar vegna umhverfisáhrifa árið 2001. Auður bendir á að í kjölfarið var lögunum breytt þannig að vald til bindandi ákvörðunar var tekið af Skipulagsstofnun sem veitir bara álit sem sveitarfélög eru ekki bundin af þegar þau veita framkvæmdaleyfi. „Það er mjög skrýtið að verið sé að veita framkvæmdaleyfi þó að umhverfismat gefi neikvæða niðurstöðu,“ segir Auður.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .