Í frumvarpi Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra, sem birt var í samráðsgátt stjórnvalda í mars, er lögð til fimmtán ára innleiðing rýmkunar erlendra fjárfestingaheimilda lífeyrissjóðanna en það þykir að margra mati of hægt. Þá þykir mildari framfylgd hámarksins vera til bóta sem og skilyrðislausari heimild til notkunar gengisafleiða, þótt skortur á mótaðilum takmarki möguleika á því síðarnefnda.

Í frumvarpinu er enn fremur lagt til að ekki verði lengur gerð krafa um að „tryggt sé að unnt sé að selja, gera upp eða loka [afleiðusamningum] samdægurs og á raunvirði hverju sinni". Lífeyrissjóðum hefur hingað til verið heimilt að nota afleiðusamninga til að draga úr þeirri gengisáhættu sem erlendar eignir fela í sér upp að 10% heildareigna, og hafa þeir þá mátt draga áhrif þeirra frá erlendri eignastöðu, þannig að horft er á hreina gengisáhættu. Ofangreind kvöð torveldar hins vegar gerð slíkra samninga, svokallaðra gjaldeyrisskiptasamninga, verulega enda ekki venjan að þeir séu uppsegjanlegir samdægurs, og ekki hlaupið að því að selja svo stóra samninga í svo litlum gjaldmiðli á markaði.

Stærð sjóðanna og smæð krónunnar gerir hins vegar ekki aðeins sölu þegar gerðra slíkra samninga á eftirmarkaði óraunhæfa, heldur hafa þeir ekki getað fundið mótaðila fyrir nema broti af leyfilegu magni slíkra samninga.

Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins, segir brottfall seljanleikaákvæðisins jákvætt þó það skipti e.t.v. ekki öllu máli. „Það er til bóta. Ef hlutfall erlendra eigna færi örlítið fram yfir í dag má alltaf skoða að gera gjaldeyrissamninga til að takmarka gjaldeyrisáhættu. Á hinn bóginn þarf að hafa í huga að lífeyrissjóðirnir eru mjög stórir og erfitt að finna mótaðila í slíkum samningum. Það þarf einhver að taka áhættuna í hina áttina og sá er vandfundinn. Bankarnir geta boðið okkur hóflega samninga til að verja einhvern smá hluta af eignum, en ef það á að fara í að verja kannski fleiri prósent af eignum þá verður það mjög erfitt."

Sjóðurinn gerði lauslega könnun á þessum möguleika fyrir tveimur árum síðan, og skemmst er frá því að segja að þá voru að sögn Gunnars engir aðilar, hvorki innlendir né erlendir, sem gátu komið á móti þeim að ráði. „Bankarnir treystu sér í að gera einhverja samninga við okkur en upp á tiltölulega litlar fjárhæðir."

„Þegar svona samningar voru notaðir á árum áður til að reyna að lágmarka gjaldmiðlasveiflur voru sjóðirnir hlutfallslega mun minni, og þó nokkuð um íslensk fyrirtæki sem voru að fjármagna sig með erlendum lánum eða með öfuga áhættu á við lífeyrissjóðina."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu . Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .