Vandræði flugvélaframleiðandans Boeing héldu áfram í dag. Bygging nýrra véla framleiðandans mun tefjast en á meðan virðist Airbus ganga allt í haginn.

Í dag fer fram sýning flugframleiðenda í París, höfuðborg Frakklands. Á sýningunni var tilkynnt að fyrstu Boeing 777X vélarnar, en fyrstu vélar þeirrar tegundar áttu að vera tilbúnar í jómfrúrferðir í þessum mánuði, kæmu síðar af færibandinu en áætlað var. Fyrstu afhendingarnar voru þó ekki áætlaðar fyrr en eftir tvö ár.

Ástæðan er að hreyflar vélanna, framleiddir af GE Aviation, stóðu sig ekki sem skildi við fyrstu prófanir. Nauðsynlegt er að endurhanna þá og prófa á nýjan leik áður en unnt er að prófa vélarnar sjálfar. Áætlað er að það muni tefja ferlið um nokkra mánuði.

Þetta var ekki eina höggið fyrir Boeing því á sömu sýningu kynnti Airbus nýja útgáfu af A321neo þotunum. Í máli fulltrúa Airbus kom fram að hin nýja týpa sé eilítið smærri en þær fyrri og henti vel fyrir leggi á borð við Japan til Ástralíu eða Miðausturlöndum til Indónesíu.

Hin nýja týpa hefur hlotið nafnið A321XLR en kaupandi fyrstu vélarinnar var Air Lease Corp (ALC) sem er okkur Íslendingum kunnugt í tengslum við fall Wow air. Vél félagsins hefur verið kyrrsett á Keflavíkurflugvelli til tryggingar skuldum Wow við Isavia. Talið er að Airbus hafi lokað hátt í 200 samningum um hina nýju týpu á hátíðinni.

Þetta er enn eitt höggið sem Boeing fær á sig á þessu ári en 737 Max vélar félagsins hafa verið kyrrsettar um gjörvalla jarðarkringluna eftir að alvarlegur öryggisgalli kom í ljós. Sá uppgötvaðist hins vegar ekki fyrr en eftir að tvær slíkar vélar fórust.