Þriðji dómur MDE, sem á rætur að rekja til hinna svokölluðu hrunmála, er dómur í máli Styrmis Þórs Bragasonar gegn ríkinu. Styrmir hafði verið dæmdur í eins árs fangelsi í Hæstarétti fyrir hlutdeild í umboðssvikum í máli sem oft var kallað Exeter II. Styrmir hafði verið sýknaður í héraði en Hæstiréttur sneri niðurstöðunni við. Úti í Strassbourg í júlí 2019 var það niðurstaða MDE að með því hefði verið brotið gegn rétti Styrmis til milliliðalausrar málsmeðferðar þar sem rétturinn hefði lagt nýtt mat á framburð vitna í málinu, án þess að þau hefðu verið leidd fyrir dóminn.

Á grunni dómanna, það er í Al-Thani, Landsbankamálinu og Exeter, hefur ríkið gert sex sáttir við einstaklinga sem hlutu dóma í hrunmálum, meðal annars í Milestone-málinu, Ímon og markaðsmisnotkunarmáli Landsbankans. Nýjasta niðurstaðan var í máli Ingólfs Helgasonar en nýverið var ranglega staðhæft í blaðinu að um sátt hefði verið að ræða. Hið rétta er að ríkið bauð Ingólfi sátt, sem hann hafnaði en ríkið lagði þá einhliða yfirlýsingu, samhljóða sáttarborðinu, fyrir dóminn. Dómurinn úrskurðaði, með vísan til fyrri dóms, þá sérstaklega í máli Styrmis Þórs, að boðnar bætur og viðurkenning á broti væru nægjanlegar til að ljúka málinu.

„Niðurstaða MDE er mikilvæg staðfesting á því að íslenska ríkið gætti ekki með fullnægjandi hætti að mannréttindum sakborninga við málsmeðferð og efnislega úrlausn sakamálsins, sem lauk með dómi Hæstaréttar árið 2016. Áður hafði íslenska ríkið í raun viðurkennt sök með því að bjóða sátt í málinu en við töldum mikilvægt að fá formlega niðurstöðu í málinu hjá MDE. Við kærðum einnig önnur möguleg brot ríkisins en þetta var eini þátturinn sem fékk efnislega niðurstöðu,“ segir Grímur Sigurðsson, lögmaður Ingólfs, við Viðskiptablaðið.

Í samskiptum dómsins við aðila málsins kemur fram að meðal þess sem hafi verið kært er hvort refsiákvæðin, sem undir voru í sakamálinu, teljist nægilega skýr til að uppfylla skilyrðið um skýrleika refsiheimilda og grundvallarregluna um enga refsingu án laga. Sá þáttur fékk ekki efnislega meðferð fyrir MDE en rétt er að geta þess að sambærilegar kvartanir má finna í hluta þeirra mála sem út af standa.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .