Landsframleiðslan jókst um 0,2% að raungildi fyrstu níu mánuði ársins borið saman við sama tímabil árið 2018 að því er Hagstofan greinir frá . Á sama tíma drógust þjóðarútgjöld saman um 0,9%. Einkaneysla jókst að raungildi um 2,0%, samneysla um 2,8% en fjármunamyndun dróst saman um 9,1%. Útflutningur dróst saman um 6,8% en innflutningur dróst saman um 9,7%.

Eins og Viðskiptablaðið skrifaði um í byrjun mánaðarins er spámeðaltal helstu greiningaraðila að á árinu verði hins vegar 0,2% samdráttur. Ef eina spáin sem er jákvæð, sú frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og hljóðar upp á 0,8% hagvöxt á árinu, er tekin út fyrir sviga, er meðalpáin 0,4% samdráttur fyrir árið.

Margleiðréttar tölur fyrir fyrri misseri

Niðurstaðan fyrir síðasta ár þegar upp var staðið, var hins vegar sú að hagvöxturinn hafi verið 4,6% . Hagvaxtartölur fyrri hluta ársins þurftu síðan leiðréttingar við , en samkvæmt leiðréttum tölum reyndist hagvöxturinn 0,9% á fyrstu sex mánuðum ársins.

Á þriðja ársfjórðungi mældist þó 0,1% samdráttur, sem einkum er rakið til 16,7% samdráttar í útflutningi á þjónustu, en þannig er ferðaþjónustan mæld í hagtölunum. Að raungildi dróst árstíðarleiðrétt landsframleiðsla saman um 0,7% milli annars og þriðja ársfjórðungs 2019. Á þriðja ársfjórðungnum jukust þjóðarútgjöldin, það er neysla og fjárfesting tekin saman, um 3,2%.

Vöxtur einkaneyslunnar mældist 2,1%, samneyslunnar 2,9% og fjármunamyndunar 2,9%. Þrátt fyrir aukningu í þjóðarútgjöldum dróst landsframleiðslan saman um 0,1% að raungildi á þriðja ársfjórðungi, borið saman við sama tíma fyrir ári. Á þriðja ársfjórðungi var samdráttur bæði í inn- og útflutningi, útflutningurinn dróst saman um 12,9%, meðan innflutningurinn dróst saman um 8,6%.

Í heildina jókst eins og áður segir fjármunamyndunin að raungildi um 2,9% á 3. ársfjórðungi samanborið við sama tímabil fyrra árs. Vóg þar samdráttur í atvinnuvegafjárfestingu upp á 5,4% og í fjárfestingu hins opinbera um 16,5% á móti 53,6% aukningu í íbúðafjárfestingu.

Á fyrstu níu mánuðum ársins 2019 hefur raungildishækkun fjárfestingar í íbúðarhúsnæði aukist um 38%, samanborið við sama tímabil árið áður.