Birgðir af kindakjöti 1. september síðastliðinn frá síðustu slátrun voru 1.063 tonn, sem samt sem áður eru 16,6% minni en birgðirnar ári fyrr. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Landssamtökum sauðfjárbænda og markaðsráði kindakjöts, en þar er jafnframt sagt að frá þessu magni muni um mánaðarneysla dragast áður en nýtt kjöt kemur að fullu inn á markaðinn.

Salan á innanlandsmarkaði er um 560 tonn á mánuði að meðaltali, og segir í tilkynningunni að því verði um 500 tonn umfram frá síðustu sláturtíð þegar upp verði staðið.

Markaðir fyrir allt að 2 þúsund tonn lokuðust

„Þessar birgðir eru um 5% af heildarframleiðslunni sem eru um 10 þúsund tonn,“ segir í tilkynningunni sem segir sauðfjárræktina hafa tekist á við lokun Noregsmarkaðar, afleiðingar Úkraínudeilunnar og tæknilegrar lokunar Rússlandsmarkaðar auk gengislækkunar breska pundsins og styrkingar krónunnar.

„Áætlað er að markaðir fyrir 1.500 til 2.000 tonn af kjöti hafi lokast eða laskast verulega. Sala innanlands jókst í fyrra um 331 tonn eða 5,2% Fyrstu átta mánuði þessa árs jókst innanlandssalan um 369 tonn eða 9,6%. Samanlögð aukning á sölu innanlands er því um 700 tonn frá ársbyrjun 2016.“

Segir Markaðsráðið, sem heldur undir auglýsingaherferð undir merkjum Icelandic Lamb að öflug herferð á samfélagsmiðlum auk samstarfs við um 100 veitingastaði hafi skilað sér í aukinni sölu til erlendra ferðamanna.

„Aðgerðir sem gripið var til síðasta vetur í tengslum við sérstakt markaðsátak sem Alþingi lagði 100 milljóna króna aukafjárveitingu inn í hafa skilað sölu upp á um 850 tonn. Að auki hefur samstarfsverkefni í Japan skilað sér í um 170 tonna sölu og útlit er fyrir metár í sölu til Bandaríkjanna,“ segir í tilkynningunni sem kallar á enn frekari aðgerðir.

„Samanlagt nemur aukin innanlandssala, Japansverkefnið og sérstaka átaksverkefnið um 1.720 tonnum.