Vandræði Boeing 737 Max flugvélanna virðast engan endi ætla að taka, en samkvæmt frétt BBC glímir Boeing nú við nýtt öryggisvandamál í vélunum. Óskilgreindir aðskotahlutir munu hafa fundist í eldsneytistönkum nokkurra nýrra 737 Max flugvéla sem voru í geymslu á meðan beðið er eftir að hægt sé að afhenda þær til eigenda sinna.

Yfirmaður Boeing 737 línunnar tjáði starfsmönnum sínum í kjölfar uppgötvunarinnar að þessi galli væri „óafsakanlegur“. Talsmaður Boeing segir þó að fyrirtækið sjái ekki fram á að þessi nýuppgötvaði galli valdi frekari töfum á því að Max vélarnar fari í loftið á ný.

Líkt og frægt er orðið hafa 737 Max þoturnar verið kyrrsettar á alþjóðavísu í að verða eitt ár. Ekki þykir líklegt að vélarnar fari í loftið í sumar og reiknar Icelandair m.a. ekki með vélunum í sumaráætlun sína.