Líkt og sjá má af stöplaritinu hér að ofan eru tugir blaðamanna drepnir vegna starfa sinna á ári hverju. Það sem af er árinu liggja þrír í valnum. Þeir eru drepnir af ýmsum ástæðum, bæði fyrir það sem þeir hafa skrifað og það sem vondir menn óttast að þeir skrifi um sig. Og sumir eru drepnir öðrum til viðvörunar.

Ekki týna þó allir lífinu, því enn algengara er vitaskuld að þeim sé ógnað með ýmsum hætti, kúgaðir til þess að láta af skrifum sínum og fréttaflutningi með hótunum um líkamsmeiðingar á þeim eða fjölskyldum þeirra, fjárhagslegum refsingum eða öðru af því taginu.

* * *

Slíkar ógnanir beinast yfirleitt að einstökum blaðamönnum, en enginn skyldi efast um að þær hafa áhrif á fleiri. Í seinni tíð hefur auk þess borið æ meira á árásum pópúlista á 4. stéttina, sem þeir ásaka í heild sinni um hlutdrægni og áróður. Um það höfum við einkar ógeðfelld dæmi frá löndum eins og Tyrklandi (þó valdhöfum þar henti líka að tala tárvotir um morð útsendara Sádi-Arabíu á blaðamanninum Jamal Khashoggi).

Sennilegast hafa menn þó ríkastar áhyggjur af hinu eilífa stefi Donalds Trump Bandaríkjaforseta um óþjóðhollustu bandarískra blaðamanna. Þá hefur hann hefur ítrekað kallað „óvini fólksins" og kallar hverja þá frétt „falsfrétt", sem honum er ekki að skapi. Þau orð hafa orðið stuðningsmönnum hans herhvöt gegn fjölmiðlum almennt og skoðanakannanir benda til þess að hann hafi náð að veikja tiltrú Bandaríkjamanna á fjölmiðlum langt út fyrir stuðningsmannahópinn.

Síðast á mánudag réðst einn af stuðningsmönnum Trumps á myndatökumann BBC á pólitískum fundi forsetans í Texas. Menn forsetans höfðu það helst um málið að segja, að árásarmaðurinn hafi verið fullur, eins og það hefði allt að segja.

Þetta er vitaskuld fullkomin hneisa og þar ber forsetinn alla sök. Með þessu vegur hann ekki aðeins að bandarískum fjölmiðlum, heldur tjáningarfrelsinu og lýðræðinu sjálfu. Í lýðræðisþjóðfélögum kemur það helst í hlut fjölmiðla að halda valdhöfum við efnið, en ef þeirra nýtur ekki við, hver gerir það þá?

* * *

Sumir málsvarar Bandaríkjaforseta hafa varið hann með því að það sé ekki úr lausu lofti gripið að þorri helstu fjölmiðla vestanhafs hafi horn í síðu hans og jafnframt að það sé ekki nýtt að fjölmiðlafólk þar í landi hneigist fremur til vinstri, svona á bandarískan mælikvarða.

Þeir hafa nokkuð fyrir sér í því, fræðimenn hafa rannsakað lífsskoðanir og stjórnmálaviðhorf bandarískra fjölmiðlamanna nokkuð reglulega undanfarna áratugi og niðurstöðurnar hafa verið mjög á eina leið um það. Það breytir þó engu um þessar sífelldu árásir forsetans á fjölmiðlastéttina. Þyki honum að sér vegið eða fjölmiðlar hlutdrægir er sjálfsagt að gera athugasemdir við það. En þá með athugasemdum við þann fréttaflutning, ekki með árásum á fjölmiðla og fjölmiðlafólk.

* * *

Um liðna helgi bar það til á Kaffibarnum að blaðamaðurinn Erna Ýr Öldudóttir varð fyrir aðsúgi frá Snæbirni Brynjarssyni, varaþingmanni Pírata. Að sögn Ernu veittist hann að henni með ókvæðisorðum og hótunum um barsmíðar, en Snæbjörn kvaðst aðeins hafa sagst fyrirlíta hana og þá fyrir að vinna á Viljanum, sem Björn Ingi Hrafnsson ritstýrir, og nefndi til skýringar að hann hefði verið undir áhrifum áfengis. Fréttablaðið hafði eftir vitni að Snæbjörn hafi vissulega farið mikinn þar á barnum, en taldi að hann hafi ekki hótað henni ofbeldi.

Hvernig sem í því lá sagði Erna að sér hefði fundist þetta bæði óþægilegt og ógnandi, en hún hefði verið miður sín eftir. Í ljósi umræðu í samfélaginu um háttsemi þingmanna, þætti henni þessi framkoma varaþingmannsins eiga erindi við almenning.

Í opinberri yfirlýsingu játaði Snæbjörn að hann hefði misst stjórn á skapi sínu og sagt við hana hluti „sem voru með öllu óviðeigandi". Hann sagði ennfremur að sú hegðun væri ekki sæmandi kjörnum fulltrúa og að hann myndi ekki taka sæti á Alþingi í forföllum þingmanna Pírata. - Búið og basta, ekki satt?

* * *

Fjölmiðlarýnir verður að játa að hann skilur ekki hversu lítið hefur verið um málið fjallað. Hvað svo sem nákvæmlega Snæbjörn sagði við Ernu Ýr, þá stendur hitt eftir að hann veittist að henni sem blaðamanni, fyrir það að skrifa tiltekna hluti eða fyrir það að starfa á tilteknum fjölmiðli, sem hann hefur ljóslega lítið dálæti á. Þar skiptir auðvitað máli að hann er (eða var) varaþingmaður og áhrifamaður í flokki Pírata, eins og hann gerir sér ljóslega grein fyrir.

Það er ekki aðeins árás á Ernu Ýr eða miðil hennar, það er árás á blaðamenn og fjölmiðla.

* * *

Þess vegna er fullkomlega óskiljanlegt að Blaðamannafélag Íslands hefur ekki svo mikið sem ræskt sig af þessu tilefni.

Auðvitað kallar þessi uppákoma á umfjöllun félagsins og harðorða fordæmingu. Einfaldlega af því að þarna var stjórnmálamaður með ofstopa við blaðamann. Þar skiptir í sjálfu sér minnstu hverjir áttu í hlut.

* * *

Hins vegar er erfitt að verjast þeirri hugsun að kannski það hafi skipt máli. Dettur einhverjum í hug að jafnlítið og jafnstutt hefði verið um það fjallað ef einhver varaþingmaður Miðflokksins hefði verið að abbast upp á blaðamann Stundarinnar á barnum?

* * *

Fyrst minnst er á þingflokk Miðflokksins má nefna annað dæmi um það að ekki virðist alltaf sama hver er. Á dögunum var töluvert fjallað um fundi samgöngunefndar Alþingis, sem Klausturmaðurinn Bergþór Ólason veitti forstöðu, sem sumum þingmönnum þótti óhæfa og kom til uppákomu á nefndarfundi af þeim sökum. Í lítilli frétt í Morgunblaðinu var greint frá því að þar hefðu meðal annars verið látin orð falla í garð Bergþórs, sem hefðu tekið fram hinu svívirðilegasta, sem sagt var á Klaustri. Má sú óforvitni ekki heita með ólíkindum að enginn fjölmiðill hafi grennslast nánar fyrir um það? Svo kannski er ekki sama hver er.