Hlutabréf eignarhaldsfélagsins IAG, sem á meðal annars flugfélögin British Airways, Aer Lingus og Iberia, féllu um 5% eftir útgáfu ársfjórðungsskýrslu fyrir annan ársfjórðung, en samkvæmt henni var hagnaður félagsins minni en greinendur höfðu spáð.

Verkföll flugumferðastjóra í Frakklandi, gengissveiflur, og fallandi fargjöld í Bandaríkjunum eru sagðar helstu ástæður slæmrar afkomu félagsins á fjórðungnum.

Lækkun hlutabréfanna er sú mesta á einum degi síðan í febrúar. Framkvæmdastjórinn, Willie Walsh, sagði áhrifin af verkfallinu töluverð, bæði fyrir félagið og fyrir ferðaþjónustuna á Spáni. Flug frá Spáni til norður-Evrópu þurfa að fara í gegn um franska lofthelgi, og því hefur þurft að aflýsa þeim sökum verkfalls frönsku flugumferðastjóranna. Hann tók þó fram að stöðvunin væri aðeins tímabundin hindrun.

Umfjöllun Bloomberg .