Heildar greiðslukortavelta (innlend og erlend) í júní síðastliðnum nam 91,6 milljörðum króna og jókst um 6% á milli mánaða og um 14,5% á ársgrunni. Erlend kortavelta jókst um 54% á milli maí og júní og nam 8,6 milljörðum króna. Aukning erlendrar kortaveltu á milli ára er 197% ef horft er á júní veltu. Þetta kemur fram í frétt Rannsóknaseturs verslunarinnar.

Kortavelta erlendra ferðamanna var 9,42% af heildarkortaveltu í júní en í maí var sama hlutfall 6,49% og í apríl var það aðeins 4%. Kortavelta erlendra ferðamanna var 3,63% af heildarkortaveltu í júní 2020 en 26,8% í júní 2019. Stærsti hluti erlendu kortaveltunnar kemur frá Bandaríkjamönnum eða um 58,2% í júní. Bretar og Þjóðverjar fylgja þar á eftir með 7,5% og 7,2%.

Mynd tekin frá Rannsóknarsetri verslunarinnar.

Ferðalög innanlands áfram vinsæl

Kortavelta Íslendinga hérlendis í júní jókst um 7,63% milli ára. Innlend kortavelta gististaða jókst um 30% á milli mánaða og nam rúmum 1,4 milljörðum króna í júní. Þá jókst innlend kortavelta bílaleiga um 47,5% á milli mánaða og 33,4% á milli ára sem bendir einnig til ferðalaga Íslendinga innanlands.

„Íslendingar kaupa, líkt og í síðasta mánuði, gistiþjónustu í auknum mæli sem bendir til að Íslendingar séu á ferðalögum innanlands þetta sumarið.“

Innlend kortavelta í þjónustu ferðaskrifstofa og söluaðila með skipulagðar ferðir eykst enn, nú um 43% á milli mánaða og um 99% á milli ára ef horft er á júní veltu. Menningar-, afþreyingar- og tómstundastarfsemi heldur áfram að lifna við en 26,3% aukning er á innlendri kortaveltu í þeim lið á milli mánaða.

Litlar breytingar er á innlendri kortaveltu í verslunum á milli maí og júní. Heildarvelta í verslun jókst þó um 8% milli ára og nam 46 milljörðum króna í júní síðastliðnum. Velta í stórmörkuðum og dagvöruverslunum dróst saman milli maí og júní síðastliðnum en jókst um tæp 8% samanborið við sama tíma í fyrra. Velta jókst um 18,5% í raf- og heimilistækjaverslunum og í fataverslunum nam veltan 3,8 milljörðum eða 10% hærra en í júní á síðasta ári.