Skortur á lágmarksfjárhæð og mikill kostnaður í lokuðu útboði á 22,5% hlut ríkisins í Íslandsbanka á dögunum eru meðal faglegra atriða sem sérfræðingar á fjármálamarkaði sem Viðskiptablaðið ræddi við setja spurningamerki við.

Erfitt er þó að leggja endanlegt mat á hvernig til tókst á meðan tilboðsbókin og þær verð- og magnupplýsingar sem hún hefur að geyma liggja enn á huldu.

Viðmælendur blaðsins velta því upp hvort ekki hefði verið einfaldara og hreinlegra að setja reglur um lágmarksboð í útboðinu, enda aðeins opið fagaðilum. Helmingur þátttakenda keypti fyrir minna en 100 milljónir króna hver, og stóð samanlagt undir aðeins 3,6 milljörðum króna eða 6,8% söluandvirðisins. Stærsti þriðjungurinn var með 85%.

Sjá einnig: Seldu í samkeppni við sjálfa sig

Of lítið tillit til íslenskra aðstæðna
700 milljóna króna kostnaður söluferlisins hefur einnig verið gagnrýndur, og viðmælendurnir fullyrða að hann hefði getað verið umtalsvert lægri þrátt fyrir að vera – eins og Bankasýslan hefur bent á – mun lægri en í almenna frumútboðinu og Kauphallarskráningunni í fyrra og „ekki hærri en almennt má gera ráð fyrir í útboðum sem þessum“.

Ekki hefur verið birt sundurliðun á kostnaðinum, en aðkoma stórra erlendra fjármálafyrirtækja og sölutrygging útboðsins eru nefnd sérstaklega sem kostnaðarsamar ákvarðanir sem spyrja megi hvort hafi verið nauðsynlegar.

Tilgangurinn hafi vísast verið sá að hámarka faglega ásýnd ferlisins, en til viðbótar við kostnaðinn megi velta því upp hvort almenn erlend nálgun hafi verið heimfærð of stíft án tillits til markaðsaðstæðna hér á landi. Markaðurinn sé lítill, bankinn stór og fjármálamarkaðir hafi verið fullmeðvitaðir um hvað var í vændum, og því ef til vill hvorki þörf á sama átaki við öflun tilboða og víða erlendis né sérstakri sölutryggingu.

Skýringar á lágmarksleysi ósannfærandi
Loks hefur skortur á lágmarksfjárhæð tilboða vakið upp spurningar. Eins og komið var inn á hér í upphafi og sjá má á meðfylgjandi mynd er erfitt að sjá að lægri tilboð frá einstaklingum og öðrum litlum einkafjárfestum hafi skipt teljandi máli við að ná lágmarksfjárhæð útboðsins, auk þess sem heildarupphæð tilboða á viðmiðunarverði nam þegar upp var staðið um tvöföldu söluandvirði.

Bankasýslan hefur svarað því til að sala til „stærri aðila“ hefði að hennar mati síður samrýmst meginreglum um dreift og fjölbreytt eignarhald, jafnræði og að leita skyldi markaðsverðs.

Með á annan tug þúsunda hluthafa af öllum stærðum og gerðum og skýrt lágmark sem jafnt hefði yfir alla gengið telja viðmælendur fyrri tvö atriðin ekki sannfærandi, en í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins var haft eftir aðila sem að söluferlinu kom að fjöldi tilboða væri mikilvægur fyrir verðmyndun .

Á þá skýringu er hins vegar erfitt að leggja mat á meðan engar upplýsingar hafa verið birtar um tilboðsbók útboðsins. Viðskiptablaðið hefur óskað eftir bókinni í heild eða nánari upplýsingum úr henni varðandi magn og verð tilboða frá Bankasýslu ríkisins, en engin svör hafa enn borist.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu . Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .