Nýliðið ár var viðburðaríkt bæði innanlands sem utan. Eftirfarandi eru nokkur stór erlend mál sem höfðu áhrif á alþjóðlegt viðskiptalíf.

Tollastríð stórveldanna
Tollastríð Bandaríkjanna og Kína hélt áfram að stigmagnast á árinu. Hundraða milljarða dollara virði af tollum gengu á báða bóga á árinu, og bandarísk yfirvöld ásökuðu Kína um að standa ekki við gerða samninga. Um sumarið virtist glitta í að sáttir næðust, en allt kom fyrir ekki og viðskiptaþvinganir og yfirlýsingar héldu áfram á báða bóga um haustið. Trump stóð í ströngu á fleiri vígstöðvum. Yfir honum vofir ákæra af þinginu fyrir meint embættisbrot, en hann er sakaður um að hafa haldið eftir opinberri aðstoð til Úkraínu þar til yfirvöld þar í landi rannsökuðu son Joe Biden, fyrrverandi varaforseta og frambjóðanda í forvali demókrata til forsetakosninga sem haldnar verða á næsta ári.

Útgangan endalausa
Ekki er ofsögum sagt að útganga Bretlands úr Evrópusambandinu hafi heltekið bresk stjórnmál á árinu. Árið hófst á því að samningsdrög Theresu May forsætisráðherra voru kolfelld í þinginu, eftir að hún hafði frestað atkvæðagreiðslu um þau á síðustu stundu í desember. Eftir smávægilegar breytingar var samningurinn í tvígang borinn aftur undir þingið í mars – í seinna skiptið á deginum sem útgangan átti að taka formlega gildi, 29. mars – en í bæði skiptin var honum hafnað. Útgöngunni var því frestað til októberloka og í maí missti May stuðning eigin ríkisstjórnar og sagði af sér formennsku Íhaldsflokksins og forsætisráðherraembættinu. Í kjölfarið fór fram leiðtogakosning innan flokksins og Boris Johnson, fyrrum borgarstjóri Lundúna og einn helsti talsmaður útgöngu, var kjörinn leiðtogi flokksins og tók við sem forsætisráðherra.

Boris lofaði því statt og stöðugt í baráttunni um forystusætið að af útgöngunni í október yrði, og lét meðal annars hafa eftir sér að hann vildi frekar finnast dauður í skurði en að sækja um frestun. Þrátt fyrir efasemdir margra tókst honum að lokum að ná enn einum samningi við Evrópusambandi, þó ekki væru allir á sama máli um ágæti hans umfram samning May. Þingið hafði þá samþykkt lög þess efnis að ef ekki lægi fyrir samningur samþykktur af þinginu í aðdraganda útgöngunnar bæri Johnson að sækja um frestun. Johnson tókst ekki að fá samning sinn samþykktan á þinginu, og sótti því nauðugur viljugur um frestun fram í janúar, sem var samþykkt. Johnson boðaði þá til þingkosninga, og Íhaldsflokkur hans hlaut hreinan meirihluta í þeim um miðjan desember.

Fall Thomas Cook
Í lok september varð ferðaþjónustufyrirtækið Thomas Cook gjaldþrota, í kjölfar þess að að bresk flugmálayfirvöld stöðvuðu alla starfsemi þess. Mánuðinn á undan hafði félagið fengið stórt neyðarlán en kröfuhafar voru ekki til í að lengja frekar í fjármögnun þess. Þegar bón félagsins um 250 milljóna punda neyðarlán frá breskum yfirvöldum var svo hafnað, voru örlög félagsins ráðin. Félagið, sem rak ferðaskrifstofu og flugfélag, átti 178 ára sögu að baki. Það var stærsta félag sinnar gerðar á Bretlandi og störfuðu um 22 þúsund starfsmenn hjá félaginu víða um heim. Gjaldþrot fyrirtækisins hafði áhrif á um 600 þúsund ferðalanga. Fjölmargir breskir ferðamenn urðu strandaglópar víða um veröld og þurftu bresk stjórnvöld að taka 45 farþegaþotur á leigu til að greiða úr vandræðum ferðalanga.

Lagarde tók við taumum ECB
Franski lögfræðingurinn Christine Lagarde tók við stjórnartaumum Seðlabanka Evrópu í nóvember af Mario Draghi. Lagarde hafði áður starfað sem yfirmaður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, en hún var einnig á tímabili fjármálaráðherra Frakklands. Stýrivextir bankans hafa verið við eða í 0% um langa hríð og hefur engin breyting orðið á því á þeim stutta tíma sem Lagarde hefur stýrt bankanum. Skömmu áður en Lagarde tók við var sagt frá því að fulltrúar Frakklands, Hollands, Austurríkis og Þýskalands í Seðlabanka Evrópu myndu þrýsta á Lagarde að breyta stefnu bankans. Að mati þeirra hefur stefna bankans undanfarin ár, undir stjórn Draghi, verið allt of slök og kalla þeir eftir aðhaldssamari peningastefnu. Að þeim sökum hafa þeir fengið viðurnefnið haukarnir.

Nánar er fjallað um málið í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem kom út 30 desember. Hægt er að kaupa eintak hér .