Endurskoðunar- og ráðgjafafyrirtækið Ernst & Young (EY Ísland) hagnaðist um rúmlega 103 milljónir króna á síðasta reikningsári, sem nær frá 1. júlí 2016 til 30. júní 2017. Árið áður hagnaðist félagið um rúmar 86 milljónir.

Félagið seldi þjónustu fyrir 909 milljónir og jókst salan um 11% milli ára. Rekstrargjöld námu 782,8 milljónum og jukust um 10%. Rekstrarhagnaður nam 126,2 milljónum en var 106,6 milljónir árið á undan.

Eignir Ernst & Young námu 396,9 milljónum króna í lok júní og stækkaði efnahagsreikningurinn um tæpar 100 milljónir milli ára, einkum vegna aukningar á skammtímaskuldum. Eiginfjárhlutfall var 34,6% borið saman við 39,5% árið áður.

Handbært fé hækkaði um rúmar 48 milljónir en lækkaði um 17,4 milljónir árið áður.

Hluthafar Ernst & Young á Íslandi eru 14 talsins. Lögð verður fram arðgreiðslutillaga á næsta stjórnarfundi félagsins. Framkvæmdastjóri Ernst & Young er Ásbjörn Björnsson.