Ríkisendurskoðun segir að ekki sé hægt að gera sér grein fyrir hvort áætlanir stjórnenda hjá Icelandair séu raunhæfar. Mikilvægt sé að Alþingi sé ljóst að óvissuþættir séu fyrir hendi.

Þetta er gert í umsögn Ríkisendurskoðunar sem lögð var fram vegna frumvarpsins sem snýr að sjálfskuldarábyrgð ríkissjóðs á láni Icelandair. Segir í umsögn Ríkisendurskoðun að skilyrði sem félaginu eru sett virðast málefnaleg.

Sjá einnig: Ríkisábyrgð á lánalínu samþykkt

Hins vegar segir að ósennilegt sé að þær eignir sem frumvarpið geri ráð fyrir að verði trygging standi undir kröfum upp á allt að 15 milljörðum króna, sem er ábyrgð ríkisins vegna lánalínu þess. Segir í umsögninni að lítið sé fjallað um hvernig tryggingum fyrir endurheimtu ríkisábyrgðar skuli vera háttað. Lítið væri um hefðbundin veð hjá Icelandair, nema þá að vera aftarlega í veðröð.

Ríkisendurskoðun mun ekki taka afstöðu til þess hvort sviðsmyndir stjórnenda Icelandair séu raunhæfar. Slíkt sé ekki hægt að leggja mat á nema með úttekt sérfróðra aðila en jafnvel þá væri alveg óvíst hvort eitthvað nýtt myndi koma fram. Samt sé mikilvægt að Alþingi geri sér grein fyrir óvissuþáttunum sem séu fyrir hendi.

Ríkið gæti orðið hluthafi

Bendir Ríkisendurskoðun einnig á að ríkissjóður gæti eignast hlut í félaginu ef gengið yrði á ábyrgðir, eða hreinlega tæki rekstur þess yfir. Slíkt yrði gert með það fyrir augum að finna síðar aðra eigendur, hins vegar byggjast slíkar umræður á stjórnmálalegum forsendum og tekur stofnun því ekki afstöðu til þess.