Eftirlitsstofnun EFTA (ESA), hefur ákveðið að hefja rannsókn á ríkisaðstoð til Gagnaveitu Reykjavíkur eftir kvörtun frá Símanum.
Orkuveita Reykjavíkur, sem er að fullu í eigu sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu, hefur bæði fjármagnað og veitt GR lán, tilgangur stofnunar félagsins var til þess að aðskilja samkeppnisrekstur á fjarskiptamarkaði frá öðrum rekstri OR.

Síminn heldur því fram að OR hafi veitt GR ívilnanir sem feli í sér brot á ríkisstyrkjareglum EES-samningsins. ESA mun rannsaka hvort opinberir fjármunir hafi verið nýttir til að veita GR ívilnanir sem stóðu öðrum aðilum á markaði ekki til boða.

Póst og fjarskiptastofnun, sem hefur eftirlit með því að samkeppnisrekstur á fjarskiptamarkaði sé ekki niðurgreiddur af einkeleyfis- eða verndaðri starfsemi, hefur í þremur ákvörðunum komist að þeirri niðurstöðu að félögin hafi brotið gegn skilyrðunum.

Fór stofnunin í tveimur tilvikum fram á að ráðstafanirnar gengju til baka, en hún fór ekki fram á endurgreiðslu vaxta vegna ívilnananna í neinum málanna. Meðal þess sem ESA mun rannsaka er hvort frekari endurheimtur séu nauðsynlegar til að tryggja að GR hafi ekki notið góðs af óæskilegum lánum að því er segir á vef félagsins .

Í yfirlýsingu vegna málsins fagnar Erling Freyr Guðmundsson forstjóri GR því að ESA taki þessar þrjár ákvarðanir til frekari skoðunar. Hann segir þó að niðurstaðan muni þó hvorki hafa áhrif á viðskiptalíkan GR né áform þess um frekari uppbyggingu.

„Jafnvel þótt niðurstaða málsins kunni að verða GR í óhag telur fyrirtækið fjárhagsleg áhrif þess óveruleg,“ segir í yfirlýsingunni, þar sem það er jafnframt áréttað að félagið telji fjárhagsleg samskipti þess við eigendur sína í OR sé í samræmi við lög.

„Gagnaveita Reykjavíkur mun nú, eins og í málsmeðferðinni fyrir íslenskum yfirvöldum, senda greinargerð þar sem málavextir verða ýtarlega raktir og rök fyrir því færð að fyrirtækið hafi starfað í samræmi við lög.“