Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur hafið formlega rannsókn á því hvort Google brjóti samkeppnislög með því að hygla eigin auglýsingaþjónustu fram yfir aðrar. Financial Times greina frá.

Í tilkynningu frá Margethe Vestager, varaforseta framkvæmdastjórnar ESB, segir að Google safni upplýsingum í auglýsingaskyni, selji auglýsingapláss og starfi sem milliliður milli kaupenda og seljenda. Félagið hafi með þessu móti viðurvist á öllum stigum aðfangakeðju netauglýsinga.

Google hefur um árabil verið með markaðsráðandi stöðu á sviði auglýsinga á netinu og voru auglýsingatekjur netrisans 147 milljarðar dollara á síðasta ári, um 18 billjónir íslenskra króna.

Sjá einnig: Google sektað um 33 milljarða

ESB rannsakar nú hvort Google beiti samkeppnisaðilum tálmun. Rannsóknin mun skoða hvort að Google hygli sínu eigin auglýsingakerfi og hvort að samkeppnisaðilar geti fengið aðgengi að viðbrögðum notenda við auglýsingum sem seldar eru á auglýsingaplássi Google.

Þá mun ESB einnig hafa til skoðunar hvernig Google safnar gögnum um notendur sínar og hvort það samræmist samkeppnislögum sambandsins og almennu persónuveruverndarreglugerð þess (EU GDPR).