Vandræði kínverska fasteignafélagins Evergrande hafði ekki einungis áhrif til lækkunar á hlutabréfamarkaði víða um heim heldur er áhrifanna einnig að gæta á rafmyntir. Reuters greinir frá.

Gengi margra af helstu rafmyntum hefur lækkað töluvert í viðskiptum dagsins. Til að mynda hefur gengi Bitcoin lækkað um 7,3% og Ether um ríflega 8%.

Gengi Bitcoin féll um tíma niður í ríflega 42 þúsund dali og hefur ekki mælst lægra síðan í byrjun ágúst sl. Þá féll gengi Ether niður fyrir 3 þúsund dali í fyrsta skipti síðan í byrjun ágústmánaðar.