Bráðabirgðaniðurstöður kosninga í öllum 28 löndum Evrópusambandsins til Evrópuþingsins sýna mikið fylgistap miðjuflokka sem styðja við áframhaldandi samþættingu ríkja bandalagsins í ríkjabandalag. Misstu þannig flokkabandalög kristilegra demókrata og sósíaldemókrata meirihluta sinn.

Hins vegar var árangur öfgasinnaðra flokka á bæði hægri og vinstrivæng stjórnmálanna minni en áhorfðist en græningjar og frjálslyndir flokkar náðu að auka fylgi sitt nokkuð. Hvorir tveggja eru stuðningsmenn samþættingar ESB, svo enn er meirihluti flokka á þinginu sem styðja við að sambandið verði dýpkað enn frekar.

Evrópusinnaðir miðjuflokkar töpuðu mest

Þannig stefnir í að Evrópski þjóðarflokkurinn, samstarfsvettvangur kristilegra demókrata og annarra miðhægriflokka fari niður í 149 þingsæti af 751 á þinginu, úr 215 þingsætum frá kosningunum 2014, eða úr tæplega 29% í tæplega fimmtung þingsæta. Flest þingsætin, eða 32 eru frá CDU og CSU í Þýskalandi.

Framfarasinnað bandalag sósíalista og demókrata, bandalag sósíaldemókratískra og annarra jafnaðarmannaflokka fór niður í 140 þingsæti úr 185 sætum, eða úr tæplega 25% í tæplega 19% þingsæta, en flest þeirra, eða 20 koma frá sósíalíska verkamannaflokknum á Spáni. Þingstyrkur breska verkamannaflokksins sem tilheyrir bandalaginu helmingaðist þó, úr 19 í 10.

Frjálslyndir, græningar og þjóðernissinnar juku við sig

Bandalag frjálslyndra lýðræðissinna fyrir Evrópu, ALDE, nærri tvöfaldaði þingsætafjölda sinn, úr tæplega 8% þingsæta eða 59 í 117 þingsæti eða tæplega 16%. Meðal flokka í bandalaginu eru Venstre í Danmörku, Miðflokkurinn og sænski þjóðarflokkurinn í Finnlandi sem og bæði frjálslyndi og Miðflokkurinn í Svíþjóð sem og FDP í Þýskalandi. Einnig eru Frjálslyndir Demókratar í Bretlandi, sem urðu næst stærstir í kosningunum þar í landi, og fóru úr 1 þingsæti og 6,6% fylgi í 16 þingsæti og 20,3%, í flokkabandalaginu, en þeir voru með skýra afstöðu með Evrópusambandsaðild Bretlands.

Nýtt flokkabandalag þjóðernissinnaðra flokka, Evrópa þjóða og frelsis, fór úr því að vera með 36 þingmenn fljótlega eftir stofnun hans árið 2015 í 84 þingmenn eftir kosningarnar nú, eða í rúmlega 11%. Stærsti flokkurinn í bandalaginu er Þjóðarfylking Le Pen í Frakklandi, en aðrir eru t.a.m. Frelsisflokkurinn í Austurríki, sem hraktist úr stjórn þar í dag, sem og Norðurbandalagið, nú Bandalagið, annar stjórnarflokka Ítalíu.

Bandalag græningja- og héraðsflokka náði 84 þingsætum eða um 9%, sem er töluverð aukning frá 49 þingsætum og 6,5% á síðasta kjörtímabili. Bæði Píratar og Græningjar í Þýskalandi, ásamt græningjum í fleiri löndum eru í flokkabandalaginu.

ESB efasemdarmenn og umbótasinnaðir íhaldsmenn héldu sínum hlut, utan Bretlands

Evrópskir íhalds- og umbótamenn, flokkabandalag efasemdarmanna um frekari samþættingu Evrópusambandsins bætti eilíti við sig. Þingmenn hans hafa verið helst þingmenn Íhaldsflokksins og Ulster sambandssina í Bretlandi, og stjórnarflokks Póllands, Lög og réttlæti, ásamt Danska þjóðarflokknum og Finnska flokknum í Finnlandi. Bættu þeir við sig þrátt fyrir hrun Íhaldsflokksins í Bretlandi og fóru þeir úr því að vera með 45 þingmenn, eða 6%, í tæplega 7% og 51 þingmenn.

Íhaldsflokkurinn galt eins og áður sagði afhroð, fór úr 18 þingmönnum niður í 3 á Evrópuþinginu, en einn þeirra sem komust áfram inn var Daniel Hannan, einn helsti talsmaður útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.

Hins vegar náði nýr flokkur Nigel Farage, fyrrum leiðtoga UKIP, sem stofnaði Brexit flokkinn fyrir tæpum tveimur mánuðum síðan, 28 þingsætum, með 31,6% fylgi. Gamli flokkurinn hans, sem Farage sagði vera orðin heltekinn af baráttunni við Íslam, náði ekki manni inn, en UKIP var með 10 þingmenn fyrir, og fór úr tæpum 27% í 3,5%.

Flokkabandalag Evrópu frelsis og lýðræðis, nú beins lýðræðis, sem inniheldur Brexit flokkinn, virðist þó standa í stað, en stór hluti þeirra flokka sem áður voru í bandalaginu fóru yfir í áðurnefnt flokkabandalag þjóðernisflokka, ENF, eða yfir í ECR flokk umbótasinna og íhaldsmanna.

Þannig stefnir í að bandalagið verði með um 55 þingmenn frá Brexit flokknum í Bretlandi, Valkosts fyrir Þýskaland og Fimm stjörnu hreyfingarinnar í Ítalíu, eftir kosningarnar nú, en eftir kosningarnar fyrir fimm árum voru flokkarnir 13 sem að bandalaginu stóðu, með 38 þingsæti. Valkosturinn var þá í ECR, en fór yfir árið 2016.

Nigel Farage fagnar en Daniel Hannan marði þingsæti

Ljóst er að kosningarnar munu hafa töluverð áhrif á stjórnmálin í bæði ESB sjálfu og aðildarlöndunum, en einna helst líklegast í Bretlandi sem enn hefur ekki komist út úr sambandinu þó þrjú ár séu síðan meirihluti kjósenda þar í landi ákváðu að svo yrði.

Þannig sagði Daniel Hannan Evrópuþingmaður breska Íhaldsflokksins, sem Guardian segir hafa rétt svo komist inn á þing, að þetta væru „verstu niðurstöður sem flokkur minn hefur þurft að þola í 185 ára sögu sinn,“ en hann skildi þó vel afhverju. „Þú þarft ekki að vera neinn sérfræðingur í stjórnmálum til að skilja þetta, þjóðin kaus að yfirgefa ESB og við höfum ekki gert það enn,“ sagði Hannan.

Nigel Farage leiðtogi Brexit flokksins sem lagði upp með að með því að kjósa þá væri verið að tryggja útgöngu, jafnvel án samnings, var hins vegar að vonum sigurhreyfur, og sagði það aldrei hafa gerst í sögunni áður að nýr flokkur stofnaður fyrir sex vikum yrði stærstur. „Það er gríðarleg skilaboð í þessu. Verkamanna- og íhaldsflokkarnir gætu lært gríðarlega af þessum skilaboðum, þó ég búist ekki við því að þeir muni raunverulega gera það.“