Örn Arnarson sérfræðingur hjá Samtökum fjármálafyrirtækja segir að ný reglugerð ESB sem skyldi viðskiptabanka til að veita öðrum fyrirtækjum óhindrað aðgengi að reikningum viðskiptavina muni valda straumhvörfum í bankaþjónustu. Segir hann að umræðu um framtíðarskipan fjármálamarkaða verða að taka tillit til aukinnar innreiðar tæknifyrirtækja inn á bankamarkað.

„PSD II-tilskipunin skapar sameiginlegan markað fyrir greiðsluþjónustu í Evrópu,“ segir Örn í pistli í Viðskiptablaðinu um breytinguna sem jafnframt þýðir að bankar munu ekki geta rukkað viðbótargjöld fyrir aðganginn.

„Fyrirtæki geta því með heimild eiganda innlánsreiknings greitt beint af honum og jafnframt safnað saman fjárhagsupplýsingum hans úr bankakerfinu til þess að geta veitt honum tiltekna þjónustu. Einsýnt þykir að stórir alþjóðlegir tæknirisar á borð við Google, Facebook og Amazon og nýsköpunarfyrirtæki á sviði fjártækni (e. fintech), svo að dæmi séu tekin, muni sækja fram í krafti þessara breytinga.“

Örn segir breytinguna fela í sér í miklar áskoranir fyrir hefðbundin fjármálafyrirtæki en fyrirtæki sem vilji nýta sér heimildina munu einungis þurfa að sækja sér starfsheimild frá fjármálaeftirliti einhvers eins ríkis innan EES til að veita þjónustuna alls staðar á efnahagssvæðinu.

„Íslenskur fjármálamarkaður er því ekki eyland í þessum efnum frekar en öðrum og þar af leiðandi er nauðsynlegt að taka mið af áhrifum þessara breytinga þegar rætt um er um framtíðarskipan fjármálamarkaða á vettvangi stjórnmálanna.“