Félag atvinnurekenda gagnrýnir harðlega afgreiðslu meirihluta allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis á frumvarpi um breytingar á smásölufyrirkomulagi áfengis. Lýsir félagið vonbrigðum með að nefndin hafi ekki bugðist við athugasemdum og tillögum félagsins varðandi breytta innheimtu áfengisgjalds.

Bendir félagið á í athugasemdum sem sendar voru á allsherjar- og menntamálanefnd að núverandi lagaákvæði um innheimtu áfengisgjalds séu arfur einkarréttarfyrirkomulags í áfengisverslun og þeim verði að breyta ef breyta eigi smásölufyrirkomulaginu.

Í athugasemdum FA segir „Allir sem hafa lágmarksþekkingu á rekstri og fjármögnun fyrirtækja átta sig á að það hefur gífurlega neikvæð áhrif á sjóðstreymi og rekstrarhæfi að þurfa að greiða upp undir 80% af verði vöru í skatt áður en hún er sett í sölu, en þurfa svo að bíða í upp undir tvo mánuði eftir því að tekjurnar af sölunni skili sér, eins og mun gerast ef sömu lögmál gilda um smásölu áfengis og aðra verzlun, að óbreyttum ákvæðum um innheimtu áfengisgjalds,“

FA lýsir einnig furðu á því að ÁTVR skuli starfrækt áfram samhliða sérverslunum með áfengi og ítrekar félagið þá afstöðu sína að ríkið eigi almennt ekki að stunda rekstur sem einkaaðilar geti sinnt ágætlega, þá sérstaklega ekki sölu á almennri neysluvöru.

Þá telur FA að með breytingatillögum nefndarinnar sé alltof mikið þrengt að áfengisauglýsingum. Gagnrýnir félagið að banna eigi áfengisauglýsingar frá klukkan sjö að morgni til 21 að kvöldi en á sama tíma fari fram útsendingar frá íþróttaviðburðum erlendis þar sem erlendar áfengistegundir eru auglýstar stanslaust.